Fréttir 2006

15/12 2006

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ lokið

Á fundi stjórnar EBÍ þann 11. október s.l. var úthlutað styrkjum úr Styrktarsjóði EBÍ. Mikill fjöldi umsókna barst sjóðnum. Alls var sótt um styrk til 35 verkefna frá 26 sveitarfélögum, en það er tæplega helmingur aðildarsveitarfélaga EBÍ.

Til úthlutunar komu fjórar milljónir og voru samþykktar styrkveitingar til 11 verkefna.

Styrktarsjóður EBÍ hefur verið starfræktur frá árinu 1996. Samtals hefur verið úthlutað styrkjum að upphæð 34.950.000 til 131 verkefnis frá 60 sveitarfélögum.

Lista yfir úthlutanir sjóðsins frá upphafi er að finna annars staðar á heimasíðunni.

15/12 2006

Þýðing á bókinni "Skogsbrandslackning"

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands hefur ákveðið að láta þýða bókina “Skogsbrandslackning” sem sænska brunamálastofnunin hefur gefið út. Bókin er mjög gott fræðslurit um gróðurelda og hvernig bregðast skuli við þeim. Byrjað er að þýða bókina og mun hún væntanlega koma út í vor. Bókinni verður dreift til allra slökkviliða á landinu. EBÍ telur það mjög brýnt forvarnarverkefni að ráðast í þýðingu bókarinnar, því mjög litlar upplýsingar eru til á íslensku um gróðurelda. Verkefnið er unnið í samráði við Brunamálastofnun.

13/10 2006

EBÍ greiðir 450 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga 13. október

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands hefur ákveðið á grundvelli samþykkta fulltrúaráðs félagsins að greiða samtals 450 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar í ár. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum. Aðildarsveitarfélögin eru 63.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða rúmar 50 milljónir króna. Til Kópavogs renna tæpar 39 milljónir, Reykjanesbær fær tæpar 32 milljónir í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 21 milljón, Vestmannaeyjabær 18 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 15 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu. Ágóðahlutur aðildarsveitarfélaganna frá EBÍ hefur m.a. orðið til þess að nokkur sveitarfélög hafa endurnýjað slökkvibifreiðar sínar svo og annan slökkvibúnað.

EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Slíkar greiðslur hófust árið 1934 með samningi Brunabótafélags Íslands við sveitarfélög um fjármögnun slökkvitækja. Árið 1955 var gefin út sérstök reglugerð um þessar greiðslur, og aftur árið 1985.

Með framlagi þessa árs hefur EBÍ samtals greitt aðildarsveitarfélögunum rúma 2 milljarða króna.

Nánari upplýsingar veitir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ. (Sími: 544-5070).