Fréttir 2007

24/10 2007

Gjöf EBÍ afhent Landspítala við athöfn í Fossvogi

Guðmundur Bjarnason, stjórnarformaður EBÍ, afhenti í dag Magnúsi Péturssyni, forstjóra Landspítala, 5 milljónir króna til kaupa á tækjum sem tengjast meðferð alvarlegra brunaáverka á börnum. Stjórn EBÍ samþykkti að færa spítalanum þessa fjármuni í tilefni af því að í ár eru 90 ár liðin frá stofnun Brunabótafélags Íslands. Þegar hefur verið ákveðið að kaupa tiltekin tæki fyrir peningana til að nota á svæfingar-, gjörgæslu- og skurðdeildum Landspítala.

Forstjóri Landspítalans tók við gjöfinni á Landspítala í Fossvogi að viðstöddum nokkrum öðrum yfirmönnum og starfsmönnum spítalans. Auk Guðmundar voru þarna af hálfu EBÍ Arnór Pálsson stjórnarmaður, Anna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri og Þuríður Dan Jónsdóttir, fulltrúi á skrifstofu. Á eftir sýndu heimamenn gestunum aðbúnað og aðstæður á gjörgæsludeild og á lýtalækningadeild, þar sem meðal annars er að finna einu sérbúnu sjúkrastofu landsins fyrir fórnarlömb bruna.

Guðmundur Bjarnason sagði að líta bæri á gjöfina sem viðurkenningu og þakklætisvott fyrir allt það góða starf sem unnið væri á Landspítala í þágu landsmanna allra. Stuðningurinn væri auk þess í anda þeirrar stefnu EBÍ að sinna forvarnarverkefnum tengdum upphaflegri starfsemi Brunabótafélagsins. Þannig hefði EBÍ beitt sér fyrir eldvörnum og fræðslu þar að lútandi á leikskólum um allt land og styrkt Landssamband slökkviliðsmanna til að standa straum af árlegri eldvarnaviku í skólum landsins, svo dæmi væru tekin.

Það kom fram í máli Magnúsar Péturssonar, og annarra af hálfu Landspítala, að gjöf EBÍ kæmi sér afar vel og gerði starfsmönnum þar í raun fært að annast sjúklinga með brunaáverka eins vel og kostur væri. Magnús kvaðst vera afar þakklátur EBÍ fyrir hönd spítalans og lýsti því raunar að sjálfur Landspítalinn þyrfti beinlínis á svona stuðningi almennings að halda. Orðrétt sagði forstjórinn nefnilega um leið og hann tók við gjöf EBÍ:

„Við á Landspítalanum teljum að miðað við þær aðstæður sem okkur eru búnar sé kominn á bærilegur rekstur hér en á öllum stórum bæjum má auðvitað alltaf gera eitthvað betur einhvers staðar! Hins vegar er það að gerast að almenningur, bæði félög og einstaklingar, koma meira og meira inn í rekstur og gjöf EBÍ er dæmi um slíkt. Það er orðið þannig hér að ef þessi stuðningur almennings kæmi ekki til væri aðbúnaður fólks og tæki hvers konar í lakara ástandi en raun ber vitni um. Vissulega er nokkur alvara í þessum orðum mínum og þess vegna metum við enn meira að félög á borð EBÍ komi og færi okkur gjafir. Þær koma sér mjög vel og eru vel þegnar. Hafið heila þökk fyrir.“

16/10 2007

EBÍ greiðir 450 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga 15. október.

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands hefur ákveðið á grundvelli samþykkta fulltrúaráðs félagsins að greiða samtals 450 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar í ár. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum. Aðildarsveitarfélögin eru 63.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða rúmar 50 milljónir króna. Til Kópavogs renna tæpar 39 milljónir, Reykjanesbær fær tæpar 32 milljónir í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 21 milljón, Vestmannaeyjabær 18 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 15 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu. Ágóðahlutur aðildarsveitarfélaganna frá EBÍ hefur m.a. orðið til þess að nokkur sveitarfélög hafa endurnýjað slökkvibifreiðar sínar svo og annan slökkvibúnað.

EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Slíkar greiðslur hófust árið 1934 með samningi Brunabótafélags Íslands við sveitarfélög um fjármögnun slökkvitækja. Árið 1955 var gefin út sérstök reglugerð um þessar greiðslur, og aftur árið 1985.

Með framlagi þessa árs hefur EBÍ samtals greitt aðildarsveitarfélögunum tæpa 2,5 milljarða króna.

Nánari upplýsingar veitir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ. (Sími: 544-5070)

16/10 2007

Aðalfundur fulltrúaráðs EBÍ

14. aðalfundur fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands var haldinn þann 5. október s.l. Í skýrslum formanns og framkvæmdastjóra félagsins kom fram að eignir félagsins hafa vaxið mikið undanfarin ár og eru nú tæpir 8 milljarðar. Er þetta einstaklega góður árangur, þegar m.a. er horft til þess að aðildarsveitarfélögum EBÍ hefur á s.l. 10 árum verið greiddur ágóðahlutur að samtals upphæð kr. 2,5 milljarður.

Á fundinum var samþykkt ný fjárfestingastefna fyrir félagið og samþykkt stefnumótun varðandi greiðslu ágóðahluta til aðildarsveitarfélaganna. Styrktarsjóður EBÍvar kynntur fyrir fundarmönnum, og Björn Karlsson brunamálastjóri flutti fróðlegt erindi um starfsemi Brunamálstofnunar.

Þá var ný stjórn kosin. Einn stjórnarmaður Jónas Hallgrímsson Seyðisfirði gekk úr stjórn og í stað hans var Ása Helgadóttir fulltrúi Héraðsnefndar Borgarfjarðar kjörin.

2/10 2007

Slökkviliðin gera átak í forvörnum og fræðslu á leikskólum

Slökkviliðin um allt land eru að hefja samstarf við leikskólana á starfssvæðum sínum um átak í eldvarnaeftirliti og fræðslu til að auka öryggi á leikskólunum og heimilum barnanna. Verkefnið er unnið í samvinnu við Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem leggur slökkviliðunum til fjölbreytt og vandað efni til fræðslu og eftirlits. Sérstakir aðstoðarmenn slökkviliðanna í verkefninu eru slökkviálfarnir Logi og Glóð sem eru jafnframt helsta auðkenni verkefnisins.

Átakið er stærsta einstaka forvarnaverkefni slökkviliðanna til þessa. Tilefni þess að ráðist var í þetta verkefni er meðal annars könnun sem sýndi að eldvörnum heimilanna er verulega áfátt og á það ekki síst við um heimili ungs fólks.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins reið á vaðið síðastliðið vor en nú nær átakið til nær allra slökkviliða í landinu, stórra sem smárra.

Markmið verkefnisins er þríþætt:

1.

Að tryggja að eldvarnir í leikskólunum verði ávallt eins og best verður á kosið.

2.

Að veita elstu börnunum fyrstu fræðslu um eldvarnir og kynna fyrir þeim störf slökkviliðsmanna og búnað.

3.

Að minna foreldra og forráðamenn barnanna á mikilvægi þess að hafa eldvarnir heimilisins í lagi og veita þeim leiðbeiningar um hvernig ná má því marki.

Til að ná þessum markmiðum heimsækja slökkviliðin leikskólana tvisvar sinnum á hverju ári. Í fyrri heimsókn er gengið úr skugga um að eldvarnir leikskólans séu í lagi. Í þeirri síðari heimsækja slökkviliðsmenn elstu börnin á leikskólanum og fræða þau um störf sín og eldvarnir. Þá fá börnin sérstaka viðurkenningu og möppu með verkefnum og upplýsingum um eldvarnir. Börnin hafa möppuna með sér heim og skilar fræðslan sér þannig til heimilanna. Á milli heimsókna slökkviliðsins annast leikskólinn eigið eldvarnaeftirlit mánaðarlega með þátttöku barnanna. Leikskólinn skuldbindur sig einnig til að gera rýmingaráætlun og æfa rýmingu árlega, samkvæmt samkomulagi sem aðilar gera með sér í upphafi.

Nánari upplýsingar og viðtöl:
Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, í síma 544 5070
Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, í síma 421 4748
Magnús Viðar Arnarsson, Slökkviliði Akureyrar, í síma 461 4203.

19/9 2007

Aðalfundur fulltrúráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands

Aðalfundur fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands verður haldinn á Radisson SAS Hótel Sögu föstudaginn 5. október n.k. kl. 13.00. Skv. 10. gr. laga 68/1994 skal kalla saman aðalfund fulltrúaráðs EBÍ fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum.

Á aðalfundi skal kjósa félaginu stjórn og varastjórn og er kjörtímabil stjórnarmanna einnig milli aðalfunda.

Fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins er skipað fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að EBÍ sbr. 9. gr. laga um félagið. Fjárhagsleg og stjórnunarleg ábyrgð á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands er í höndum aðildarsveitarfélaganna og hefur fulltrúaráðið æðsta vald í málefnum félagsins.

Í fulltrúaráðsfundinum eiga sæti 45 fulltrúar aðildarsveitarfélaganna og héraðsnefnda.

31/5 2007

Slökkvilið og leikskólar um allt land í samstarf um eldvarnir og fræðslu

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) og fleiri slökkvilið í samvinnu við Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands (EBÍ) eru að hefja samstarf við leikskólana um eldvarnaeftirlit og fræðslu til að auka öryggi á leikskólunum og heimilum barnanna. Á höfuðborgarsvæðinu nær verkefnið árlega til um 150 leikskóla og 2.500 barna og fjölskyldna þeirra.

Um er að ræða stærsta einstaka forvarnaverkefni slökkviliðanna til þessa. Tilefni þess að ráðist var í þetta verkefni er meðal annars skoðanakönnun sem sýndi að eldvörnum heimilanna er verulega áfátt og á það ekki síst við um heimili ungs fólks.

Markmið verkefnisins er þríþætt:

1.

Að tryggja að eldvarnir í leikskólunum verði ávallt eins og best verður á kosið.

2.

Að veita elstu börnunum fyrstu fræðslu um eldvarnir og kynna fyrir þeim störf slökkviliðsmanna og búnað.

3.

Að minna foreldra og forráðamenn barnanna á mikilvægi þess að hafa eldvarnir heimilisins í lagi og veita þeim leiðbeiningar um hvernig ná má því marki.

Útbúið hefur verið fjölbreytt og vandað fræðsluefni og önnur gögn sem nýtast ofangreindum markhópum. SHS þróaði verkefnið í samvinnu við ráðgjafa, hönnuði og starfsmenn á menntasviði Reykjavíkurborgar. Sérstakir aðstoðarmenn slökkviliðsins í verkefninu eru slökkviálfarnir Logi og Glóð sem eru jafnframt helsta auðkenni verkefnisins.

EBÍ lét aðlaga fræðsluefnið þannig að það nýtist öðrum slökkviliðum í landinu og lætur þeim það í té án endurgjalds. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir slökkviliðsstjórum um allt land og hefur það fengið góðar undirtektir. Ljóst er að ráðist verður í það meðal annars á Suðurnesjum, í Árnessýslu, Fjarðabyggð, á Héraði og víðar.

Verkefnið fer þannig fram að slökkviliðin heimsækja leikskólana tvisvar sinnum á hverju ári. Í fyrri heimsókn er gengið úr skugga um að eldvarnir leikskólans séu í lagi. Í þeirri síðari heimsækja slökkviliðsmenn elstu börnin á leikskólanum og fræða þau um störf sín og eldvarnir. Þá fá börnin sérstaka viðurkenningu og möppu með verkefnum og upplýsingum um eldvarnir. Börnin hafa möppuna með sér heim og skilar fræðslan sér þannig til heimilanna. Á milli heimsókna slökkviliðsins annast leikskólinn eigið eldvarnaeftirlit mánaðarlega með þátttöku barnanna. Leikskólinn skuldbindur sig einnig til að gera rýmingaráætlun og æfa rýmingu árlega, samkvæmt samkomulagi sem aðilar gera með sér í upphafi.

25/4 2007

Slökkviliðin fá bæklinga um eldvarnir á sjö erlendum tungumálum

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands (EBÍ) hefur gefið út bæklinga um grunnatriði eldvarna á sjö erlendum tungumálum, auk íslensku. EBÍ býður slökkviliðum landsins bæklingana til notkunar án endurgjalds og eru þeir þegar komnir í talsverða dreifingu víða um land.

Efnið er ætlað innflytjendum og útlendingum sem búa og starfa hér á landi um lengri og skemmri tíma. Bæklingarnir eru tveir og í þeim er fjallað um reykskynjara, flótta úr brennandi íbúð, slökkvitæki og fleiri grunnatriði eldvarna á heimilum.

Þá er fjallað um neyðarnúmerið, 112, og Hjálparsíma Rauða krossins en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafði áður gefið efnið út í samvinnu við 112 og Rauða kross Íslands. Alþjóðahúsið þýddi efnið á ensku, pólsku, rússnesku, litháísku, spænsku, tælensku og serbnesku.

EBÍ vill með útgáfu bæklinganna tryggja að stór slökkvilið sem smá geti brugðist við breyttum aðstæðum og veitt nýjum íbúum sveitarfélaganna upplýsingar sem stuðla að auknu öryggi þeirra.

Félagið er í sameign einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Einn helsti tilgangur þess er að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða og styðja alhliða forvarnastarf í sveitarfélögum.

Nánari upplýsingar:
Anna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri í síma 544 5070.