Endurnýjun slökkvibúnaðar

Um mitt ár 1998 hófst undirbúningsvinna vegna fyrirhugaðra magninnkaupa á slökkvibifreiðum og öðrum búnaði fyrir slökkvilið landsins. Þar tóku höndum saman Samband íslenskra sveitarfélaga og Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands (EBÍ) og skipuðu starfshóp fagmanna á sviði brunamála með menntun, þekkingu og reynslu er lýtur að starfsemi og búnaði slökkviliða.

Tækjabúnaður slökkviliða þarfnast víða endurnýjunar og viðhald er orðið erfitt vegna skorts á varahlutum. Samkvæmt skrám munu vera á landinu 173 slökkvibifreiðar. Af þeim eru 125 orðnar 20 ára eða eldri. Aldur sumra má rekja allt aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar. Því töldu þessir aðilar brýnt að farið yrði út í undirbúningsvinnu til að stuðla að frekari þróun.

Til að vinna frekar að málinu var skipaður faglegur starfshópur. Í starfshópinn voru skipaðir:

Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Akureyri

Guðmundur Vignir Óskarsson, formaður Landssambands slökkviliðsmanna

Hrólfur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík, sem jafnframt var kosinn formaður hópsins

Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, þ.m.t. Reykjanesbæ

Snorri Baldursson, slökkviliðsstjóri í Hveragerði

Þorbergur Hauksson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Eskifjarðar og Reyðarfjarðar

Þorbjörn Sveinsson, slökkviliðsstjóri í Ísafjarðarbæ

Verkefni starfshópsins var m.a. að gera tillögur um fyrirkomulag magninnkaupa á tækjabúnaði slökkviliðanna í landinu, svo og huga að hvernig hægt væri að stuðla að úrbótum í brunamálum.

Starfshópurinn lagði áherslu á að ekki eigi að endurnýja búnað með notuðum tækjum, heldur efla brunavarnir í landinu með nýjum og fullkomnum tækjabúnaði sem tryggir öryggi til lengri tíma, í samræmi við samþykkt stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins.

Í skýrslu hópsins er stillt upp ýmsum dæmum um markvissa uppbyggingu á tækjakosti slökkviliða. Einnig bar starfshópurinn saman kostnað við kaup á nýjum og notuðum slökkvibifreiðum. Niðurstaðan bendir eindregið til þess að hagkvæmara sé að kaupa ný tæki. Þá eru tekin dæmi um það að greiddur ágóðahlutur til aðildarsveitarfélaga EBÍ getur í mörgum tilfellum staðið undir fjármögnun vegna endurnýjunar á tækjum til slökkviliða.

Á grundvelli þessarar undirbúningsvinnu, sem hófst með skipan starfshópsins, auglýsti Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar f.h. Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga útboð á 7 slökkvibifreiðum og slökkvikerrum.

Sérstök matsnefnd,skipuð af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og EBÍ, fór yfir og lagði mat á tilboðin skv. ákveðnum valforsendum í útboðsgögnunum. Í nefndinni voru eftirtaldir aðilar:

Guðmundur Bjarnason, EBÍ

Birgir Blöndal, Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Bergsteinn Gizurarson, Brunamálastofnun ríkisins

Marinó Þorsteinsson, Innkaupastofnun ríkisins

Birgir Finnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri Akureyri, fulltrúi faghóps

Markmiðið með þessu vinnulagi, þ.e. að skipa hlutlausa ráðgefandi nefnd, var að hlutlaust mat og sameiginlegar upplýsingar væru fyrir hendi fyrir sveitarfélögin, sem síðan tækju hina formlegu ákvörðun um kaup.

Eftir yfirferð matsnefndarinnar liggur fyrir niðurstaða hennar. Álit nefndarinnar var að lægsta tilboðið sem uppfylli útboðsskilmála í svokallaðan A-bíl væri frá Ólafi Gíslasyni & Co h.f. –Eldvarnamiðstöðinni, tilboðsverð kr. 10.974.930.- án vsk.

Matsnefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að taka engu tilboði í B-bíl en beindi jafnframt þeim tilmælum til sveitarfélaga er hyggja á kaup á B-bíl að beina viðskiptum sínum til einhvers eftirtalinna lægstbjóðenda, enda liggja fyrir staðfest verð og útfærslur á bílunum.

Tilboðsverð í B-bílana án vsk. eru eftirfarandi:

Almenna vörusalan. MT bílar:

kr. 7.846.461.-

IB Innflutningsmiðlun ehf:

kr. 8.701.869.-

Ólafur Gíslason & Co. h.f. – Eldvarnamiðstöðin

kr. 9.460.138.-

Staðan í dag

Þau sveitarfélög sem tóku þátt í útboðinu á A-bílnum festu þegar kaup á slökkvibifreiðum og eru fyrstu 2 bílarnir komnir til Seyðisfjarðar og Fjarðabyggðar. Nokkrir aðrir hafa fylgt í kjölfarið og er staðan í dag sú að staðfest eru kaup á eftirtöldum 9 nýjum slökkvibifreiðum:

Sandgerðisbær

A-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnamiðstöðinni

Hveragerði

A-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnamiðstöðinni

Fjarðabyggð

A-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnamiðstöðinni

Seyðisfjörður

A-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnamiðstöðinni

Brunavarnir Suðurnesja

A-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnamiðstöðinni

Brunavarnir Suðurnesja

B-bíll frá Ólafi Gíslasyni & Co-Eldvarnarmiðstöðinni

Grundarfjörður

A-bíll. Innlend framleiðsla. Almenna vörusalan Ólafsfirði

Brunav. Rangárvallasýslu

B-bíll. Innlend framleiðsla. Almenna vörusalan Ólafsfirði

Akranes

A-bíll. Innlend framleiðsla. Almenna vörusalan Ólafsfirði

Ólafsfjörður

Bíll. Almenna vörusalan Ólafsfirði