Samþykktir fyrir Egnarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

I. KAFLI

Heiti. Tilgangur.

1. gr.

Með lögum nr. 68 frá 11. maí 1994 var Brunabótafélagi Íslands breytt í eignarhaldsfélag og hættir félagið þar með allri beinni vátryggingastarfsemi, en Brunabótafélagið var stofnað sem gagnkvæmt vátryggingafélag með lögum nr. 54 frá 3. nóvember 1915 og hóf starfsemi sína sem slíkt hinn 1. janúar 1917.

Með lögum nr. 68/1994 er staðfest sú þróun málefna Brunabótafélags Íslands, að félagið flytur alla vátryggingastofna sína í sérstakt rekstrarfélag í hlutafélagsformi, Vátryggingafélag Íslands hf., sem stofnað var 1989. Eignarhaldsfélagið gengur inn í allar skyldur Brunabótafélagsins og yfirtekur eigur þess. Eignarhaldsfélagið gengur jafnframt í einu og öllu inn í samningsaðild Brunabótafélagsins um stofnun Vátryggingafélags Íslands hf. og Líftryggingafélags Íslands hf. og á sama hátt inn í alla samninga milli hluthafa, sem Brunabótafélagið hefur verið aðili að fram að gildistöku laganna nr. 68/1994. Undantekningin er þó sú, að við flutning á vátryggingastofni Brunabótafélagsins í brunatryggingum fasteigna til Vátryggingafélags Íslands hf. flytjast til VÍS að sjálfsögðu eignir á móti vátryggingaskuldbindingunum.

2. gr.

Eignarhaldsfélagið heldur nafni og kennitölu Brunabótafélags Íslands og heitir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands kennitala 480169-4179. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur og starfssvið félagsins er einkum:

3.1.

Að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum. Fulltrúaráð félagsins, sbr. 12. grein hefur svigrúm til athafna, sem ráðið telur, að tengist starfsemi félagsins á vátryggingamarkaði og hagsmunum eigenda þess. Kemur hér til greina eignarhald í öðrum félögum, innlendum sem erlendum, og það einnig í skyldum rekstri svo sem fjármögnunarstarfsemi, bankastarfsemi o.fl. í takt við þróun markaðarins. Félagið skal stuðla að ráðgjöf til handa sveitarfélögum á sviði vátrygginga, svo sem við áhættumat, forvarnir og stjórnun vátryggingatöku í því skyni að ná fram sem hagstæðastri vátryggingavernd fyrir sveitarfélögin í samræmi við fyrri reglur Brunabótafélagsins um arð af viðskiptum og ágóðahlut.

3.2.

Að stunda lánastarfsemi, meðal annars til verklegra framkvæmda sveitarfélaga, eftir því sem ástæður félagsins leyfa, og að stuðla að því, að vátryggingafélög þau, sem félagið hefur eignaraðild að, stundi lánastarfsemi í sama skyni og með sama hætti. Einnig annast félagið rekstur fasteigna, hvort sem félagið notar fasteignina eða ekki.

3.3.

Að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði, og að taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi.

4. gr.

Það er jafnframt hlutverk félagsins að stuðla með öllum ráðum

4.1.

að eflinu brunavarna og slökkviliða í sveitarfélögum landsins

4.2.

að aukinni og virkari áhættustjórnun af hálfu sveitarfélaga, og

4.3.

að eflingu alhliða forvarnarstarfs af hálfu sveitarstjórna.

II. KAFLI

Flutningur stofns. Eign og ábyrgð.

5. gr.

Flytja skal vátryggingastofn Brunabótafélags Íslands í brunatryggingum fasteigna til Vátryggingafélags Íslands hf., og skal sá flutningur miðast við 1. janúar 1994 samkvæmt leyfi Vátryggingaeftirlitsins og ákvörðun fulltrúaráðsfundar hinn 24. júní 1994. Réttindi og skyldur vátryggingataka og vátryggðra, m.a. að því er varðar skilmála og iðgjöld skulu haldast óbreytt við þennan lögmælta flutning vátryggingastofnsins.

Vátryggingafélag Íslands hf. gengur með þessum hætti inn í aðild Brunabótafélags Íslands að samningum um brunatryggingar fasteigna við sveitarfélögin, og leiðir það af flutningi stofnsins og því að eignarhaldsfélagið hættir vátryggingastarfsemi. Þar með verður til samaðild félaganna að þessum samningum við hvert sveitarfélag fyrir sig, þar sem aðild VÍS hf. lýtur að vátryggingarrekstrinum en aðild eignarhaldsfélagsins hefur þá þýðingu fyrir félagið, að samningarnir skapa grundvöll fyrir skipun fulltrúaráðs þess.

6. gr.

Samkvæmt nýjum lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar geta húseigendur hvar sem er á landinu vátryggt hús sín gegn bruna hjá hvaða vátryggingafélagi sem er, eftir gildistöku EES samningsins, og fara tímasetningarnar eftir bráðabirgðaákvæðum þeirra laga. Þar með breytast samningar BÍ/VÍS við sveitarfélögin um brunatryggingar fasteigna í þá veru, að þeir gilda eingöngu fyrir þá húseigendur á viðkomandi samningssvæði, sem eftir gildistöku laganna flytja ekki húsatryggingar sínar til annarra vátryggingafélaga.

7. gr.

Samningar Brunabótafélags Íslands við sveitarfélögin um brunatryggingar fasteigna, sem upp voru teknir í kjölfar laganna nr. 59/1954 og nr. 9/1955 halda gildi sínu samkvæmt eigin ákvæðum út samningstíma þeirra. Sveitarfélag, sem þess óskar, getur þó sagt upp samningnum með sex mánaða fyrirvara miðað við 15. október 1995, eða síðar en missir við þá uppsögn aðild að fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins.

Sveitarfélag, sem hefur sagt upp brunatryggingarsamningnum og á þar af leiðandi ekki aðild að stjórn og fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins, á hins vegar eftir sem áður aðild að hinni óvirku sameign eftir iðgjaldamagni sínu samkvæmt 6. grein laganna nr. 68/1994, þegar og ef til slita félagsins kemur.

8. gr.

Sameigendur félagsins eru þrír tilgreindir aðilar:

Í fyrsta hópnum eru þeir húseigendur, sbr. 12. grein laga nr. 9/1955, sem hafa brunatryggingu fasteigna sinna hjá Brunabótafélagi Íslands, þegar lögin nr. 68/1994 taka gildi og fluttir eru samkvæmt þeim lögum til Vátryggingafélags Íslands hf.

Í öðrum hópnum eru þeir tryggingatakar, sbr. 11. grein laga nr. 50/1978, sem vátryggðu hagsmuni sína hjá Brunabótafélagi Íslands 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi tryggingamálaráðherra til Vátryggingafélags Íslands hf. 1. janúar 1989.

Þriðji aðilinn er Sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins, sem stofnaður er með lögunum nr. 68/1994, sbr. III. kafla þeirra laga.

Eigendahóparnir, sem tilgreindir eru hér að framan breytast með tímanum samkvæmt ákvæðum 15. gr. laganna nr. 68/1994.

Ábyrgð sameigenda félagsins takmarkast við eignarréttindi þeirra í því, sem þýðir, að hrökkvi eignir eignarhaldsfélagsins ekki fyrir skuldbindingum þess, verður ekki unnt að ganga að sameigendum.

9. gr.

Eignarréttindi sameigenda eru óvirk meðan félagið starfar, sem táknar það að ekki er hægt að veðsetja þau, selja eða gefa eða afhenda á nokkurn hátt, nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr. laganna nr. 68/1994, og þau erfast ekki, sbr. 15. gr. sömu laga. Við slit félagsins verður eignarhlutinn fyrst virkur og hægt er að reikna eignarhlut sameigendanna út eftir ákvæðum laganna og þessara samþykkta og ráðstafa slitaverðmætinu á þeim grundvelli. Ákveða skal slitaverðmæti (eignarhlut) hvers og eins sameiganda á þeim degi, er lögin taka gildi, og færa á sérstaka skrá og síðan árlega.

Eignarhlutur hvers og eins sameiganda skv. 1. tl. 5. gr. laganna nr. 68/1994 ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands tvö undangengin almanaksár fyrir gildistöku laganna.

Eignarhlutur hvers og eins sameiganda, skv. 2. tl. 5. gr. ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands almanaksárin 1987 og 1988 framreiknaðar til ársloka 1992 í hlutfalli við breytingar á hreinni eign félagsins frá árslokum 1988 til ársloka 1992 samkvæmt ársreikningi.

Eignarhlutir látinna sameigenda og sameigenda, sem ekki eru lengur til og/eða ekki skráðir lögaðilar við gildistöku laga þessara falla til sameignarsjóðs, sbr. III. kafla. Færa skal á skrá þá sem færast í sameignarsjóðinn í upphafi og síðan árlega, sbr. 15. gr. laganna nr. 68/1994, þannig að séð verður hver eign sameignarsjóðsins er á hverjum tíma.

III. KAFLI

Sameignarsjóður.

10. gr.

Stofnaður er sjóður er heitir Sameignarsjóður Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands. Tilgangur sjóðsins er hinn sami og tilgreindur er í 3. gr.

11. gr.

Til sameignarsjóðsins falla metin eignarréttindi sameigenda eftir reglum í 15. gr., þ.e. við andlát sameiganda og þegar lögaðili sem er sameigandi er ekki lengur til og/eða ekki lengur skráður lögaðili. Sameignarsjóðurinn vex því jafnt og þétt meðan tímar renna um leið og hin óvirku sameignarréttindi hinna hópanna beggja minnka.

Sameignarsjóðurinn skal vera í vörslu félagsins en fulltrúaráð þess ákveður meðferð hans. Fulltrúaráðið skal setja sameignarsjóðnum samþykktir sem hafa að geyma fyllri ákvæði um útfærslu lagaákvæðanna um sjóðinn, þar á meðal um meðferð hans.

IV. KAFLI

Fulltrúaráð. Fundir. Stjórn.

12. gr.

Fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins er skipað fulltrúum sveitarfélaganna í landinu eftir ákvæðum laga nr. 68/1994. Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í málefnum félagsins og fallið er niður stjórnunarlegt forræði ríkisins á félaginu.

13. gr.

Eftirfarandi reglur gilda um tilnefningu sveitarfélaga í fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins:

Ári eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skal hver kaupstaður, sem er í samningstengslum við félagið um brunatryggingar fasteigna, tilnefna einn mann og annan til vara í fulltrúaráðið.

Á sama hátt skulu allar héraðsnefndir í landinu, sem eru í samningstengslum við félagið um brunatryggingar fasteigna, tilnefna einn mann hver og annan til vara í fulltrúaráðið. Atkvæðisréttur og kjörgengi manns á fundi í héraðsnefnd við tilnefningu í fulltrúaráð er við það bundinn, að sveitarfélag það, sem hann er fulltrúi fyrir, hafi samning um brunatryggingar fasteigna hjá félaginu.

Aðildin að fulltrúaráðinu er háð því að viðkomandi sveitarfélag hafi samning um brunatryggingar fasteigna hjá félaginu við gildistöku laganna og hafi ekki sagt upp þeim samningi síðar. Þrátt fyrir valfrelsi allra húseigenda í landinu til að vátryggja hús sín gegn eldi hjá hvaða tryggingafélagi sem er, þannig að brunatryggingasamningarnir við sveitarfélögin binda ekki alla húseigendur eins og áður var, er byggt á því, að þessir samningar myndi grundvöll að aðild að fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins.

14. gr.

Aðalfund fulltrúaráðsins skal kalla saman fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum og er kjörtímabil fulltrúaráðsmanna milli aðalfunda. Á aðalfundi skal kjósa félaginu stjórn og varastjórn og er kjörtímabil stjórnarmanna einnig milli aðalfunda. Fulltrúaráðið skal kalla saman með réttum fyrirvara til aukafunda hvenær sem stjórn félagsins ákveður og ætíð ef eigi færri en 1/10 fulltrúaráðsmanna óskar þess.

15. gr.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1.

Fundarsetning, yfirlýsing um lögmæti og kjör starfsmanna.

2.

Fluttar skýrslur stjórnar og forstjóra.

3.

Ákvarðandi og leiðbeinandi ályktanir um málefni félagsins.

4.

Afgreiddar breytingatillögur á samþykktum.

5.

Ákvörðuð laun stjórnar og endurskoðanda.

6.

Kosin stjórn og varastjórn.

7.

Kosinn endurskoðandi.

8.

Önnur mál.

16. gr.

Aðalfund fulltrúaráðsins skal halda fyrir lok október mánaðar fjórða hvert ár samkvæmt ákvæðum 10. greinar laga nr. 68/1994 á þeim stað, sem stjórn félagsins ákveður. Fundi fulltrúaráðs félagsins skulu boðaðir með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt með tveggja vikna fyrirvara.

Ef ekki er mættur helmingur fulltrúaráðsmanna á fundi, skal allt að einu setja fundinn, lýsa hann ólögmætan og boða til annars fundar innan hálfs mánaðar. Verði hann einnig ólögmætur af sömu ástæðum, skal fara eins að og boða til þriðja fundarins. Sá fundur verður lögmætur, hversu fáir sem mæta. Þetta lögmæti nær þó ekki til þess að slíta félaginu, samanber 25. grein samþykkta þessara.

17. gr.

Almenn fundarsköp gilda á fundum félagsins. Kjósa skal fundarstjóra og fundarritara. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála, nema samþykktir ákveði annað. Við kosningar og afgreiðslu mála á fundum félagsins hefur hver fulltrúi eitt atkvæði.

Leynilegar kosningar skulu viðhafðar, ef þess er óskað við stjórnarkjör eða tilnefningu manna í nefndir eða önnur trúnaðarstörf innan eða utan félagsins. Hlutkesti skal ráða, ef atkvæði falla jafnt í kosningum.

Fundur í félaginu, hvort sem er aðalfundur eða aukafundur, er lögmætur og ályktunarhæfur, ef réttilega er til hans boðað og mættur er meirihluti fulltrúaráðsmanna. Færa skal til bókar með greinilegum hætti það sem gerist á fundum í félaginu og skulu fundarstjóri og fundarritari undirrita fundargerðir því til staðfestingar.

18. gr.

Á aðalfundi fulltrúaráðsins skal kjósa sjö manna stjórn og fimm til vara, alla úr hópi fulltrúaráðsmanna. Leitast skal við að allir landshlutar, sem eru í samningstengslum við félagið fái fulltrúa í stjórn. Stjórnarmenn skipta sjálfir með sér verkum, formaður, varaformaður, ritari og fjórir meðstjórnendur. Forfallist aðalmaður um lengri eða skemmri tíma, skal hann tilnefna varamann sinn en falli aðalmaður frá, skal stjórn félagsins ráða varamanni. Stjórn félagsins afgreiðir ársreikninga félagsins fyrir lok júnímánaðar ár hvert, hefur umsjón með sjóðum og öðrum eignum og gætir hagsmuna félagsins í hvívetna.

19. gr.

Skuldbindingar stjórnarinnar eru bindandi fyrir félagið í heild, ef þær eru undirritaðar af formanni eða varaformanni í forföllum hans og þremur stjórnarmönnum.

20. gr.

Stjórn félagsins undirbýr og boðar fulltrúaráðið til funda og framkvæmir ályktanir fundanna. Stjórn félagsins er jafnframt stjórn sameignarsjóðsins. Formaður stjórnar eða varaformaður í forföllum hans setur félagsfundi, gengur úr skugga um lögmæti þeirra og stjórnar kjöri starfsmanna.

21. gr.

Stjórnarfundir skulu haldnir þegar þörf krefur eða þrír stjórnarmenn óska þess. Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim eða varaformaður í forföllum hans. Færa skal til bókar með greinilegum hætti það sem gerist á stjórnarfundum í félaginu og skulu allir fundarmenn undirrita fundargerðir stjórnarinnar því til staðfestingar. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða á sama hátt og á öðrum fundum í félaginu.

22. gr.

Stjórnin ræður félaginu forstjóra sem stjórnar daglegum rekstri félagsins og fjármálum í umboði stjórnar samkvæmt nánari ákvæðum í starfssamningi sem stjórnin gerir við hann. Stjórnin ákveður forstjóra laun og önnur starfskjör.

23. gr.

Aðalfundur kýs einn endurskoðanda, sem er löggiltur til slíkra starfa, og endurskoðar hann fjóra ársreikninga félagsins milli aðalfunda. Ef hann forfallast tilnefnir hann löggiltan endurskoðanda í sinn stað.

Endurskoðandi skal rannsaka alla reikninga, staðreyna eignir og skuldir og rannsaka allan fjárhag félagsins. Að því loknu skal hann semja ársreikninga félagsins í samræmi við lög og árita þá til staðfestingar um gildi þeirra. Endurskoðandi skal hafa aðgang að öllum bókum, skjölum og gögnum félagsins á hvaða tíma sem er.

Uppfæra skal í hverjum ársreikningi fjárhæð þá, sem tilheyrir sameignarsjóðnum.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

V. KAFLI

Breytingar. Félagsslit. Brottfall réttinda.

24. gr.

Við andlát sameiganda og þegar lögaðili sem er sameigandi er ekki lengur til og/eða ekki lengur skráður sem lögaðili, falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.

Reglan um flutning hinna óvirku sameignarréttinda frá sameigendum til sameignarsjóðs, meðan félaginu er ekki slitið, byggir á ákvæðum í 5., 8. og 15. grein laganna nr. 68/1994. Með flutningnum færast eignarréttindin undir yfirráð fulltrúaráðs félagsins.
Verði eignarhaldsfélaginu slitið þegar öll eignarréttindin hafa tæmst í sameignarsjóðinn, fer fulltrúaráðið þá með ráðstöfun eignanna. Ef eignarhaldsfélaginu verður slitið áður en til þess kemur, skiptast eignirnar milli sameigendanna, sem þá eru við lýði, og sameignarsjóðsins.

25. gr.

Ákvörðun um slit á félaginu skal tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins og þarf atkvæði minnst ¾ fulltrúaráðsmanna til að slík samþykkt sé gild. Slíta má félaginu með þeim hætti, að það verði sameinað öðru félagi eða að nýtt félag verði stofnað til að taka við hlutverki þess. Fulltrúaráðið getur ákveðið þetta með breytingum á samþykktum félagsins í samræmi við fyrstu málsgrein þessarar greinar. Í því falli getur fulltrúaráðið ákvarðað hvernig með skuli fara að virtum eignarréttindum sameigenda og sameignarsjóðs svo og hagsmunum kröfuhafa.

Ef eignarhaldsfélaginu verður slitið án þess að framhald sé fyrirhugað í einhverju formi, verður slitameðferðin svo sem hér segir: Fyrst skal inna af hendi allar skuldbindingar þess, hverju nafni sem nefnast eða setja tryggingar fyrir greiðslu þeirra. Síðan skal greiða þeim sem eiga réttindi hjá félaginu á grundvelli 5. gr. en það sem eftir er rennur til sameignarsjóðs.

Taki annað félag ekki við hlutverki eignarhaldsfélagsins við slit þess skal hrein eign sameignarsjóðsins renna til þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráðinu í hlutfalli við brunatryggingariðgjöld fasteigna samkvæmt samningum sveitarfélaganna á vátryggingarárinu 15. október 1992 til 14. október 1993.

26. gr.

Sameining sveitarfélags sem er í samningstengslum við félagið og annars eða annarra sveitarfélaga, sem ekki eru slík tengsl við, breytir ekki réttindum hins sameinaða sveitarfélags í eignarhaldsfélaginu, kjósi sveitarfélagið að halda samningstengslum sínum áfram eftir sameininguna.

Ef hins vegar sameinaða sveitarfélagið hirðir ekki um að halda við samningstengslunum, falla réttindin um aðild að fulltrúaráðinu niður. Þótt aðildin að fulltrúaráðinu falli hins vegar niður á þennan hátt, falla sameignarréttindi hins upphaflega sveitarfélags ekki niður, þegar og ef til slita kemur.

27. gr.

Samkvæmt 14. grein laga nr. 68/1994 skal fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins setja félaginu samþykktir, er taki til innri málefna félagsins og hafi jafnframt að geyma nánari útfærslu á ákvæðum laganna. Samþykktunum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins, enda samþykki 75% fundarmanna breytinguna.

Samþykktir þessar eru settar af stjórn eignarhaldsfélagsins samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum nr. 68/1994.

28. gr.

ÁKVÆÐI TIL BRÁÐABIRGÐA.

Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands eins og það er skipað við gildistöku laga þessara verði fulltrúaráð Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fram að næsta aðalfundi fulltrúaráðsins sem haldinn skal árið 1995 og sama gildir um stjórn þess. Stjórnin skal setja félaginu samþykktir innan tveggja mánaða frá gildistöku laga nr. 68/1994, sem starfa ber eftir þar til fulltrúaráðið hefur sett félaginu samþykktir samkvæmt ákvæðum 14. gr. Starfssvið fulltrúaráðs Brunabótafélags Íslands og stjórnar breytist til samræmis við ákvæði laga nr. 68/1994. Skipunarbréf forstjóra Brunabótafélags Íslands gildi áfram í samræmi við ákvæði þess.