Lög um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994

I. Kafli

Heiti. Tilgangur

1. gr.

Með lögum þessum er Brunabótafélagi Íslands, sem starfað hefur sem gagnkvæmt vátryggingafélag síðan 1. janúar 1917, breytt í eignarhaldsfélag og hættir félagið jafnframt beinni vátryggingastarfsemi. Frá gildistöku laga þessara yfirtekur eignarhaldsfélagið öll réttindi og allar skyldur Brunabótafélags Íslands hverju nafni sem nefnast, sbr. þó 4. gr.

2. gr.

Heiti félagsins er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur og starfssvið félagsins er einkum:

-

að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum,

-

að stunda lánastarfsemi, m.a. til verklegra framkvæmda sveitarfélaga eftir því sem ástæður félagsins leyfa, svo og rekstur fasteigna,

-

að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og að taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi.

II. Kafli

Flutningur stofns. Eign og ábyrgð.

4. gr.

Flytja skal vátryggingastofn Brunabótafélags Íslands í brunatryggingum fasteigna við gildistöku laga þessara til Vátryggingafélags Íslands hf. Réttindi og skyldur vátryggingataka og vátryggðra, m.a. að því er varðar skilmála og iðgjöld, skulu haldast óbreytt við flutninginn. Vátryggingafélag Íslands hf. gengur inn í aðild Brunabótafélags Íslands að samningum um brunatryggingar fasteigna við sveitarfélögin og skulu báðir aðilar bundnir við efni þeirra samninga. Sveitarfélag, sem þess óskar, getur þó sagt upp samningnum með sex mánaða fyrirvara miðað við 15. október 1995 en missir við þá uppsögn aðild að fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins. Eigendur fasteigna eru bundnir af samningum sveitarfélaga við Brunabótafélag Íslands samkvæmt ákvæðum laga um brunatryggingar húseigna.

5. gr.

Sameigendur félagsins eru:

1.

Þeir sem hafa brunatryggingu fasteignar hjá Brunabótafélagi Íslands þegar lög þessi taka gildi og fluttir eru til Vátryggingafélags Íslands hf., sbr. 4. gr.

2.

Þeir sem vátryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi tryggingamálaráðherra til Vátryggingafélags Íslands hf. 1. janúar 1989.

3.

Sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins, sbr. III. kafla.

Eigendahópar skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. breytast samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga þessara.

Ábyrgð sameigenda félagsins takmarkast við eignarréttindi þeirra í því.

6. gr.

Eignarréttindi sameigenda eru óvirk nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr. Ákveða skal slitaverðmæti (eignarhlut) hvers og eins sameiganda á þeim degi er lög þessi taka gildi.

Eignarhlutur hvers og eins sameiganda skv. 1. tölul. 5. gr. ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands tvö undangengin almanaksár fyrir gildistöku laganna.

Eignarhlutur hvers og eins sameiganda skv. 2. tölul. 5.gr. ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands almanaksárin 1987 og 1988, framreiknaðar til ársloka 1992 í hlutfalli við breytingar á hreinni eign félagsins frá árslokum 1988 til ársloka 1992 samkvæmt ársreikningi.

Eignarhlutir látinna sameigenda og sameigenda sem ekki eru skráðir lögaðilar við gildistöku laga þessara falla til sameignarsjóðs, sbr. III. kafla.

III. Kafli

Sameignarsjóður.

7. gr.

Stofnaður er sjóður er heitir sameignarsjóður Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands.

Tilgangur sjóðsins er hinn sami og tilgreindur er í 3. gr.

8. gr.

Til sameignarsjóðsins falla metin eignarréttindi sameigenda eftir reglum í 15. gr.

Sameignarsjóðurinn skal vera í vörslu félagsins en fulltrúaráð þess ákveður meðferð hans.

Fulltrúaráðið skal setja sameignarsjóðnum samþykktir sem hafa að geyma fyllri ákvæði um útfærslu lagaákvæðanna um sjóðinn.

IV. Kafli

Fulltrúaráð. Fundir. Stjórn.

9. gr.

Fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins er skipað fulltrúum sveitarfélaganna í landinu eftir nánari ákvæðum þessara laga. Fulltrúaráðið hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Ári eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar skulu kaupstaðir og héraðsnefndir, sem fulltrúa eiga í fulltrúaráði félagsins, tilnefna einn mann og annan til vara í fulltrúaráðið. Atkvæðisréttur og kjörgengi manns á fundi í héraðsnefnd við tilnefningu í fulltrúaráð er háð því að sveitarfélag það, sem hann er fulltrúi fyrir, hafi haft samning um brunatryggingar fasteigna hjá Brunabótafélagi Íslands er lög þessi tóku gildi og hafi ekki sagt þeim samningi upp síðar.

10. gr.

Aðalfund fulltrúaráðsins skal kalla saman fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum, og er kjörtímabil fulltrúaráðsmanna milli aðalfunda. Á aðalfundi skal kjósa félaginu stjórn og varastjórn og er kjörtímabil stjórnarmanna einnig milli aðalfunda. Fulltrúaráðið skal kalla saman til aukafunda hvenær sem stjórn félagsins ákveður og ætíð ef eigi færri en 1/10 fulltrúaráðsmanna óskar þess.

11. gr.

Á aðalfundi fulltrúaráðsins skal kjósa sjö manna stjórn og fimm til vara, alla úr hópi fulltrúaráðsmanna. Stjórnarmenn skipta sjálfir með sér verkum. Stjórn félagsins afgreiðir ársreikninga félagsins fyrir lok júnímánaðar ár hvert, hefur umsjón með sjóðum og öðrum eignum og gætir hagsmuna félagsins í hvívetna.

12. gr.

Skuldbindingar stjórnarinnar eru bindandi fyrir félagið í heild ef þær eru undirritaðar af formanni eða varaformanni í forföllum hans og þremur stjórnarmönnum.

13. gr.

Stjórnin ræður félaginu forstjóra sem stjórnar daglegum rekstri félagsins og fjármálum í umboði stjórnar samkvæmt nánari ákvæðum í starfssamningi sem stjórnin gerir við hann. Stjórnin ákveður forstjóra laun og önnur starfskjör.

14. gr.

Fulltrúaráð skal setja félaginu samþykktir sem taki til innri málefna félagsins, svo sem um boðun funda og lögmæti þeirra, fundarsköp og dagskrár funda, afgreiðslu mála, framlagningu ársreikninga og endurskoðun þeirra. Jafnframt skulu samþykktirnar hafa að geyma nánari útfærslu á ákvæðum þessara laga. Samþykktum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðs enda hafi 3/4 fundarmanna samþykkt breytinguna.

V. Kafli
Breytingar. Félagsslit. Brottfall réttinda.

15. gr.

Við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili falla eignarréttindi sameiganda skv. 5. gr. niður og eignarréttindin falla þá til sameignarsjóðs félagsins.

16. gr.

Ákvörðun um slit á félaginu skal tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins og þarf atkvæði minnst ¾ fulltrúaráðsmanna til að slík samþykkt sé gild. Ákveði fulltrúaráð að slíta félaginu skal fyrst inna af hendi allar skuldbindingar þess hverju nafni sem nefnast eða setja tryggingar fyrir greiðslu þeirra. Síðan skal greiða þeim sem eiga réttindi hjá félaginu á grundvelli 5. gr. en það sem eftir er rennur til sameignarsjóðs. Taki annað félag ekki við hlutverki eignarhaldsfélagsins við slit þess skal hrein eign sameignarsjóðsins renna til þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráðinu í hlutfalli við brunatryggingariðgjöld fasteigna samkvæmt samningum sveitarfélaganna á vátryggingarárinu 15. október 1992 til 14. október 1993.

17. gr.

Sameining sveitarfélags, sem er í samningstengslum við félagið og annars eða annarra sveitarfélaga sem ekki eru slík tengsl við, breytir ekki réttindum hins sameinaða sveitarfélags í eignarhaldsfélaginu kjósi sveitarfélagið að halda samningstengslum sínum áfram eftir sameininguna.

18. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi lög nr. 9 23. mars 1955, um Brunabótafélag Íslands, og reglugerð nr. 239 18. júní 1985 um greiðslu ágóðahluta hjá Brunabótafélagi Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða

Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands eins og það er skipað við gildistöku laga þessara verði fulltrúaráð Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fram að næsta aðalfundi fulltrúaráðsins sem haldinn skal árið 1995 og sama gildir um stjórn þess. Stjórnin skal setja félaginu samþykktir innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara sem starfa ber eftir þar til fulltrúaráðið hefur sett félaginu samþykktir samkvæmt ákvæðum 14. gr. Starfssvið fulltrúaráðs Brunabótafélags Íslands og stjórnar breytist til samræmis við ákvæði þessara laga. Skipunarbréf forstjóra Brunabótafélags Íslands gildi áfram í samræmi við ákvæði þess.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1994.