Fréttir 2025

02/04 2025

Nýjar samþykktir EBÍ

Á aukafundi fulltrúaráðs EBÍ þann 19. mars sl. var lögð fram og samþykkt tillaga að nýjum samþykktum fyrir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.


Í kjölfar umræðu á aðalfundi EBÍ árið 2023 skipaði stjórn starfshóp sem vann tillögur að breytingum. Niðurstaða starfshópsins var að þörf væri á heildarendurskoðun samþykktanna í ljósi þess að nauðsynlegt er talið að færa þær til nútímahorfs m.a. með tilliti til breytinga á umhverfi sveitarfélaga og EBÍ á þessum 30 árum frá því að eldri samþykktir tóku gildi. Sveitarfélög hafa sameinast og héraðsnefndir hafa víða verið lagðar niður. Því töldu starfshópur um endurskoðun samþykktanna og stjórn EBÍ bæði rétt og nauðsynlegt að breyta samþykktunum.


Ein af meginbreytingunum sem samþykktar voru er að eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar eiga öll aðildarsveitarfélög EBÍ að kjósa í fulltrúaráðið í stað þess að í eldri samþykktum var gert ráð fyrir að einungis bæir og héraðsnefndir kysu í fulltrúaráðið. Þá mun atkvæðavægi á fulltrúaráðsfundum miðast við eignarhlut sveitarfélags í EBÍ. Sama regla gildir einnig um breytingar á samþykktum og um slit félagsins.


Helstu breytingarnar auk ofangreindra eru ýmis ákvæði er varða heimild til rafrænna funda, hlutfall kvenna í stjórn EBÍ, ákvæði um varamenn og skipan kjörnefndar fyrir aðalfund.


Nýjar samþykktir má sjá hér.


02/04 2025

Fjárfestingastefna EBÍ

Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2025 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 21. febrúar sl.


Engar breytingar voru gerðar á stefnunni frá fyrra ári.


Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.


Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrir fram skilgreindum fjárfestingastefnum.


Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.


02/04 2025

Ársreikningur EBÍ

Á fundi sínum þann 21. febrúar sl. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2024. Heildartekjur félagsins voru um 268 milljónir og rekstrargjöld 133 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 56,3 milljónir og hagnaður félagsins því 78,6 milljónir. Heildareignir félagsins eru rúmir 2,9 milljarðar og eigið fé um 1,8 milljarðar.


Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.


Nafnávöxtun eigna félagsins var jákvæð um 9,52% og raunávöxtun var 4,53%. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri ávöxtun en hástökkvarinn í ávöxtun er eignaflokkurinn erlend hlutabréf, en ávöxtun hans var 19,9%. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 60%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs og sveitarfélaga en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 11,5% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 10,6 % safnsins.