Fréttir 2012

12/12 2012

Ungt fólk og leigjendur í mestri hættu vegna eldsvoða

Leigjendur og fólk á aldrinum 25-34 ára er berskjaldaðra fyrir eldsvoðum en aðrir. Ný rannsókn Capacent Gallup á eldvörnum á íslenskum heimilum sýnir að eldvarnir eru miklu lakari hjá fólki á aldrinum 25-34 ára en öðrum aldurshópum. Þá kemur fram sláandi munur á eldvörnum hjá leigjendum í samanburði við þá sem búa í eigin húsnæði. Þannig eru 63 prósent heimila í leiguhúsnæði með engan eða aðeins einn reykskynjara. Samsvarandi hlutfall er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Unga fólkið er einmitt líklegra en þeir eldri til að búa í leiguhúsnæði.
Capacent gerði könnunina í október síðastliðnum fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eldvarnabandalagið (EB). Fréttina í heild sinni má lesa hér.


12/12 2012

Árlegt eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Árlegt eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst með formlegum hætti í Hvassaleitisskóla í lok nóvember s.l. með því að nemendur 3ja bekkjar fengu fræðslu um eldvarnir. Þá var skólinn rýmdur án viðvörunar og starfsfólk skólans lærði að nota slökkvitæki og eldvarnarteppi. Að lokum fengu börnin að skoða slökkvibíl og sjúkrabíl SHS.
Hér má sjá fréttir um Eldvarnarátakið:
Frétt á Vísi
Frétt á Mbl

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hefur lengi styrkt LSS myndarlega í tilefni af eldvarnarviku landssambandssins.


15/10 2012

100 milljónir til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands greiðir í dag 100 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Það er félaginu mikil ánægja að hægt sé að greiða þessa fjárhæð til sveitarfélaganna, en með þessari greiðslu hafa 3,6 milljarðar verið greiddir út úr félaginu til sextíu og eins aðildarsveitarfélags.

Ákvörðun stjórnar EBÍ byggir á því meginmarkmiði fjárfestingastefndu EBÍ að greiða árlega út ágóðahlut til aðildarsveitarfélaganna en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu.

Núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum takmarka möguleika EBí til ávöxtunar en þrátt fyrir það mun félagið áfram hafa það að leiðarljósi að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og að ávöxtun félagsins renni til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.


26/9 2012

100 milljónir í ágóðahlut

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 100 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2012.

Útgreiðslan byggir á samþykkt fulltrúaráðs félagsins frá því s.l. haust og ákvæðum í fjárfestingastefnu EBÍ.

Með útgreiðslu þessa árs þann 15. október n.k. hafa rúmlega 3,6 milljarðar verið greiddir út til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.

Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2012.


26/9 2012

Styrktarsjóður EBÍ

Stjórn EBÍ úthlutaði kr. 4 milljónum úr Styrktarsjóði EBÍ á fundi sínum þann 7. september s.l. Alls voru það 12 verkefni víðs vegar um landið sem fengu styrk. Umsóknir í sjóðinn voru 26.

Hér má sjá lista yfir styrkúthlutun ársins.


3/7 2012

Þróa hugbúnað til að efla eldvarnir

,,Þessi hugbúnaður á eftir að auðvelda alla vinnu við brunaeftirlit, samræma vinnubrögð og gera öllum slökkviliðum í landinu og þjónustuaðilum brunavarna kleift að skrá og nálgast nauðsynlegar upplýsingar miðlægt,“ sagði Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Slökkviliðið, ásamt Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands (EBÍ) og Mannvirkjastofnun (MVS) skrifuðu í dag undir samstarfssamning um þróun hugbúnaðar til að efla eftirlit með brunavörnum á Íslandi. Hugbúnaðurinn hefur fengið vinnuheitið Brunavarnagáttir og kemur til með að halda utan um allt sem tengist brunavörnum í byggingum og ástandi þeirra. Gert er ráð fyrir að fyrsta útgáfa hans verði komin í notkun í desember 2014.

Miðlægur gagnagrunnur mun þannig geyma og halda utanum gögn um allar byggingar á Íslandi sem heyra undir lög um brunavarnir og eru eftirlitsskyldar. Þar verða skráðar allar skoðanir slökkviliða og þjónustuaðila brunavarna, öll mál sem verða til vegna skoðana og allar aðgerðir sem framkvæmdar eru innan málanna. Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, segir verkefnið mjög brýnt og vonast til að öll slökkvilið í landinu muni notfæra sér hugbúnaðinn og stuðla þannig að samræmdri skráningu upplýsinga.

Að sögn Björns Karlssonar, forstjóra MVS, er þetta mjög spennandi verkefni sem gefur mikla möguleika til framtíðar því auðkenni fasteigna í grunninum verður það sama og er í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og mannvirkjaskrá MVS. Með því móti verður í framtíðinni hægt að geyma og nálgast upplýsingar um opinberar úttektir og leyfisveitingar á einum og sama staðnum. Þar með yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að þróa og innleiða miðlægan gagnagrunn á landsvísu í þessum tilgangi.

Nánari upplýsingar veitir:
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, sími 894-5421 (jon.vidar.matthiasson@shs.is)


29/3 2012

Eldvarnabandalagið gerir fræðsluefni um eigið eldvarnaeftirlit

Eldvarnabandalagið hefur gefið út kynningarefni, leiðbeiningar, gátlista og önnur gögn sem nýtast fyrirtækjum og stofnunum við að koma á og viðhalda eigin eldvarnaeftirliti. Rafræn gögn eru aðgengileg hér á vef Mannvirkjastofnunar en kynningarefni og leiðbeiningar hafa einnig verið prentuð. Fyrirtæki og stofnanir geta nálgast prentgögnin hjá tryggingafélagi sínu eða slökkviliði. Á vefsvæði Eldvarnabandalagsins er einnig að finna handbók um eldvarnir heimilisins.

Ríkar ástæður eru fyrir fyrirtæki og stofnanir til að taka upp eigið eldvarnaeftirlit. Það stuðlar að auknum skilningi eigenda og starfsfólks á mikilvægi eldvarna og getur dregið verulega úr hættu á að eldur komi upp. Komi eldur upp engu að síður eru miklar líkur á að ráða megi niðurlögum hans fljótt og draga úr tjóni, hafi rétt verið staðið að eldvörnum og fyrstu viðbrögðum. Slökkvilið og tryggingafélög hafa ákveðið að taka höndum saman um að heimsækja fyrirtæki og hvetja þau til eigin eldvarnaeftirlits. Þau hyggjast jafnframt fræða starfsfólk um eldvarnirnar heima fyrir. Gögn vegna verkefnisins eru á vefsvæði Eldvarnabandalagsins.

Vefsvæði Eldvarnabandalagsins um eldvarnir fyrirtækja og heimila.


15/3 2012

Ársreikningur EBÍ fyrir árið 2011

Ársreikningur ársins 2011 hefur verið samþykktur í stjórn félagsins og má nálgast hann í heild sinni undir flipanum “fjármál”.

Tap ársins er rúmar 88,7 milljónir króna. Kemur það til annars vegar vegna endurálagningar fjármagnstekjuskatts vegna gjaldáranna 2008 og 2009 og hins vegar að öll fjármagnstekjuskattsskuldbinding félagsins er gjaldfærð nú. Aftur á móti var hagnaður fyrir tekjuskatt 98,8 milljónir. Heildareignir EBÍ eru 3,2 milljarðar sem samanstendur aðallega af ríkisskuldabréfum.

Heildarskuldir eru 761 milljónir og þar af er lífeyrisskuldbindingin við LSR 660 milljónir og skattskuldbinding 98,7 milljónir. Sameignarsjóðurinn er 31,33% af eigin fé og hefur hækkað um 0,88% milli ára.


15/3 2012

Ávöxtun eigna á árinu 2011

Heildarávöxtun eigna EBÍ var jákvæð um 7,22%. Ávöxtunin eftir eignaflokkum er eftirfarandi:

Bankainnistæður

2,44%

Skuldabréf

8,9%

Innl. hlutabréfasjóðir

-2,9%

Erlendir hlutabréfasjóðir

-3,8%

Enn eru í eigu félagsins eignir í lokuðum sjóðum sem eru í slitameðferð en þær eignir eru með neikvæða ávöxtun. Þegar þessar eignir eru ekki teknar með í útreikningi á heildarávöxtun eigna félagsins þá er ávöxtun „virkra“ eigna 8,71%.


15/3 2012

Eignir EBÍ í lok árs 2011

Eignir félagsins hækkuðu um 57 milljónir á milli áranna 2010 og 2011. Ekki var greiddur út ágóðahlutur til sveitarfélaganna á árinu skv. samþykkt aðalfundar fulltrúaráðs EBÍ. Sú ákvörðun var tekin í því ljósi að skv. fjárfestingastefnu félagsins þá skal leitast við að lágmarka líkur á að útgreiðslan skerði höfuðstól eigna félagsins. Þrátt fyrir þessa ákvörðun þá er útgreiddur ágóðahlutur til aðildarsveitarfélaganna frá árinu 1998 3,5 milljarðar.

Í lok ársins 2011 var skipting í eignaflokka eftirfarandi:

Innlán í bönkum og sparisjóðum

0,5%

Skuldabréf:

- með ábyrgð ríkis

77,7%

- með ábyrgð fjármálafyrirtækja

1,7%

- með ábyrgð fyrirtækja

6,8%

- erlend skuldabréf

3,8%

Innlend hlutabréf

1,4%

Erlend hlutabréf

8,1%