Fréttir 2014

19/11 2014

Leigjendur berskjaldaðir fyrir eldsvoðum

Eldvarnabandalagið vill skylda leigusala til að tryggja eldvarnir

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, telur að bregðast verði við þessari staðreynd með því að setja ákvæði í húsaleigulög og löggilta leigusamninga um skyldur leigusala vegna eldvarna. Könnunin sýnir að 63 prósent leigjenda hafa engan eða aðeins einn reykskynjara. Hlutfallið er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

- Við hjá Eldvarnabandalaginu höfum bent velferðarráðuneytinu á nauðsyn þess við endurskoðun húsaleigulaga að setja ákvæði um skyldur leigusala til að tryggja lágmarkseldvarnir þegar húsnæði er leigt út. Margvíslegar kröfur eru gerðar um búnað í leiguhúsnæði og ástand þess en það er hvergi minnst á eldvarnir í núgildandi lögum. Í löggiltum leigusamningum er jafnframt lýsing á ástandi húsnæðis og þar þarf að gera ráð fyrir eldvarnabúnaði, að lágmarki einum virkum reykskynjara og nýhlöðnu slökkvitæki, segir Björn en Mannvirkjastofnun á aðild að Eldvarnabandalaginu ásamt níu öðrum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. Bandalagið hyggst beita sér fyrir auknum eldvörnum í leiguhúsnæði á næstu misserum.

Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent.

Eldvarnir eru áberandi lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði hvort sem litið er til reykskynjara, slökkvitækja eða eldvarnateppa. Nær einn af hverjum tíu leigjendum hafa engan reykskynjara en það gildir um sex prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Mun algengara er að fólk í eigin húsnæði hafi tvo reykskynjara eða fleiri eins og slökkviliðsmenn mæla með. Þar af segist nær helmingur vera með þrjá reykskynjara eða fleiri.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.


5/11 2014

50 milljónir í ágóðahlut

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 50 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2014.

Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Til að minnka líkur á að gengið sé á eigið fé félagsins til lengri tíma og til að jafna út sveiflur í greiðslu ágóðahluta samþykkti stjórnin að miða greiðslu ágóðahlutans við meðalhækkun eigin fjár síðustu þriggja ára. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.

Fjárfestingaumhverfi félagsins takmarkar ávöxtunarmöguleika miðað við ofangreindar forsendur þá metur stjórn félagsins það mögulegt nú að greiddur verði út ágóðahlutur til aðildarsveitarfélaganna án þess að útgreiðslan brjóti gegn ákvæðum fjárfestingastefnunnar.

Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.

Með útgreiðslu þessa árs þann 21. nóvember n.k. hafa rúmir 3,8 milljarðar verið greiddir út til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.
Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2014.


16/6 2014

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ

Nýverið úthlutaði stjórn EBÍ úr Styrktarsjóði félagsins í nítjánda sinn. Að þessu sinni voru 5 milljónir til úthlutunar og voru 11 verkefni sveitarfélaga vítt og breitt um landið styrkt. Úthlutunina má sjá hér.

Á þessum 19 árum hafa samtals 192 verkefni verið styrkt og er heildarupphæðín orðin 67.250.000.-

Það er ósk stjórnar EBÍ að styrkveitingarnar stuðli að því að framgangur verkefnanna verði með þeim hætti sem forsvarsmenn þess vænta.


16/5 2014

Logi og Glóð

Nú eru fjölmargir slökkviálfar að útskrifast hjá slökkviliðunum um allt land, en það er liður í leikskólaverkefninu um slökkviálfana Loga og Glóð.

Hér má sjá frétt frá Slökkviliði Akureyrar þegar þau fengu um 300 leikskólabörn til sín í heimsókn og kynntu sér starfsemi slökkviliðsins.


13/5 2014

Styrktarsjóður EBÍ

Frestur til að skila inn umsóknum í Styrktarsjóð EBÍ rann út um s.l. mánaðarmót. Alls bárust 22 umsóknir.

Stjórn EBÍ mun á fundi sínum í júní taka ákvörðun um úthlutun styrkja, en framlag þessa árs í sjóðinn var hækkað í kr. 5 milljónir við gerð síðustu fjárhagsáætlunar.

Þegar úthlutun liggur fyrir mun öllum umsækjendum verða sent bréf.


13/5 2014

Ársreikningur 2013

Nýverið samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2013. Heildartekjur félagsins voru rúmar 205 milljónir og rekstrargjöld 107 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 52,9 milljónir og hagnaður félagsins því 54,6 milljónir. Heildareignir félagsins eru tæpir 3,2 milljarðar og eigið fé 2,3 milljarðar.

Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.

Ávöxtun eigna félagsins var 6,85% og er það lægri ávöxtun en á síðasta ári. Innlend hlutabréf gáfu bestu ávöxtunina en innlend löng verðtryggð ríkisskuldabréf drógu ávöxtunina niður. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 68%, eru skuldabréf og innistæðurmeð ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 14% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 7% safnsins.


13/5 2014

Forvarnir - Brunavörðurinn

Þann 3. apríl s.l. var formlega gefin út fyrsta útgáfan af nýja eldvarnareftirlitshugbúnaðinum „Brunavörður“ sem er samvinnuverkefni Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnunar og Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands.

Vinna við gerð hugbúnaðarins gengur vel og er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað þetta verður mikil bylting í öllum vinnubrögðum er varðar eldvarnareftirlit allra slökkviliða landsins.

Verið er að halda námskeið bæði á Akureyri og í Reykjavík í notkun búnaðarins.