Fréttir 2016
26/4 2016
Akureyri og Húnaþing vestra í átak í eldvörnum
Akureyrarbær og Húnaþing vestra hafa gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum og í stofnunum sveitarfélaganna. Samstarfið felur í sér að sveitarfélögin innleiða eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Þá verður fræðslu um eldvarnir beint að umsækjendum um húsaleigubætur en rannsóknir sýna að eldvarnir eru mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir áhugavert að vera með fyrstu sveitarfélögum til að innleiða eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt forskrift Eldvarnabandalagsins.
- Sveitarfélög hafa samkvæmt lögum ríkar skyldur í eldvörnum með rekstri slökkviliðs og opinberu eldvarnaeftirliti. Með samstarfinu við Eldvarnabandalagið förum við nýjar leiðir til að efla eldvarnir og öryggi fólks og njótum þar reynslu Eldvarnabandalagsins og efnis sem það hefur gefið út, segir Eiríkur Björn.
Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, tekur í sama streng. Hún segir mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi í þessum efnum.
- Það er mjög mikilvægur liður í samstarfinu við Eldvarnabandalagið að allt starfsfólk sveitarfélagsins mun fá fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustaðnum og heima. Það er líklegt til að auka vitund fólks um eldvarnir og hafa áhrif á eldvarnir í stofnunum Húnaþings vestra, segir Guðný Hrund.
Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Akureyrarbæ og Húnaþing vestra. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélaganna samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá fá allir starfsmenn sveitarfélaganna fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.
26/4 2016
Styrkarsjóður EBÍ
Frestur til að skila inn umsóknum í Styrktarsjóð EBÍ rennur út 30. apríl n.k. Umsóknareyðublað og reglur sjóðsins má nálgast hér á heimasíðunni.
23/2 2016
Ársreikningur EBÍ
Á fundi sínum þann 12. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2015. Heildartekjur félagsins voru rúmar 297 milljónir og rekstrargjöld 165 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 21,8 milljónir og hagnaður félagsins því 110,4 milljónir. Heildareignir félagsins er rúmur 3,2 milljarður og eigið fé tæpir 2,4 milljarðar. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.
Nafnvöxtun eigna félagsins var 9,24% en raunávöxtun 7,10%. Innlend hlutabréf gáfu bestu ávöxtunina en erlend hlutabréf sýndu lökustu ávöxtunina. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 64,6%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 10,4% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 8,1% safnsins.
23/2 2016
Fjárfestingastefna EBÍ
Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2016 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 12. febrúar s.l.
Ekki voru gerðar neinar breytingar frá fyrri stefnu, áfram eru það ríkistryggð bréf sem er stærsti eignaflokkurinn.
Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.
Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.
Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.