Fréttir 2017
27/11 2017
Dagur reykskynjarans – eru þínir í lagi?
Dagur reykskynjarans er 1. desember og af því tilefni hvetur Eldvarnabandalagið alla til að prófa reykskynjarana á heimilinu og skipta um rafhlöður eftir þörfum. Sé enginn eða aðeins einn reykskynjari á heimilinu er ágætt tilefni til þess nú í byrjun aðventu að fjölga reykskynjurum og auka þannig öryggi heimilisfólks.
Samkvæmt leiðbeiningum Eldvarnabandalagsins eiga að vera tveir eða fleiri reykskynjarar á hverju heimili. Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Þá á að minnsta kosti að setja upp framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Reykskynjara þarf að prófa fjórum sinnum á ári. Til dæmis 1. desember, um páska, þegar komið er úr sumarleyfi og þegar skólar hefjast á haustin. Styðjið fingri á prófunarhnappinn þar til viðvörunarmerki heyrist. Gott er að leyfa heimilisfólkinu að heyra hljóðið í skynjaranum. Prófið reykskynjara alltaf þegar komið er í sumarhús, einkum ef það hefur staðið autt um hríð.
Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútu fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Hana þarf yfirleitt að endurnýja árlega og er gott að gera það alltaf á sama tíma, til dæmis 1. desember. Nauðsynlegt er að prófa reykskynjarann þegar skipt hefur verið um rafhlöðu. Þó má benda á að komnir eru á markað reykskynjarar sem geta virkað í tíu ár án þess að skipt sé um rafhlöðu. Líftími reykskynjara er áætlaður um það bil tíu ár.
Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er enginn eða aðeins einn reykskynjari á 28 prósent heimila. Þetta hlutfall hefur lækkað úr 38,4 frá árinu 2006 þegar Gallup byrjaði að kanna ástand eldvarna á íslenskum heimilum. Á sama tíma hefur heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri fjölgað úr 21,5 prósent í 31,9 prósent eða um 50 prósent á tíu árum. Könnun Gallup leiðir í ljós að tveir hópar fólks standa lakar að vígi en aðrir þegar kemur að eldvörnum; leigjendur og ungt fólk.
6/10 2017
Vestmannaeyjabær eflir eldvarnir
Vestmannaeyjabær hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Sjá nánar.
29/9 2017
Sveitarfélög á Austurlandi efla eldvarnir
Brunavarnir Austurlands og sveitarfélögin sem að þeim standa hafa gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélaganna. Samkomulag um samstarfið var undirritað á Egilsstöðum 28. september s.l. Sjá nánar.
16/6 2017
Styrktarsjóður EBÍ
Á fundi stjórnar EBÍ þann 2. júní sl. voru samþykktar styrkveitingar til 14 aðila, samtals að upphæð 5,0 milljónir króna. Styrkirnir dreifðust vítt og breitt um landið og koma sér vonandi vel. Úthlutun ársins má sjá hér.
10/6 2017
Dalvíkurbyggð eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum
Dalvíkurbyggð hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að Dalvíkurbyggð innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Jafnframt innleiðir Dalvíkurbyggð verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um varúðarráðstafanir vegna logavinnu. Skrifað var undir samkomulag Dalvíkurbyggðar og Eldvarnabandalagsins í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík 9. júní.
Áður hafa Akranes, Húnaþing vestra, Akureyri og Fjarðabyggð innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið og lofar árangur af samstarfinu góðu.
Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Dalvíkurbyggð. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum í stofnunum Dalvíkurbyggðar samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins.
Þá fá allir starfsmenn sveitarfélagsins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds.
Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir ánægjulegt að Dalvíkurbyggð sé komin í hóp sveitarfélaga sem gera átak í eldvörnum.
– Reynsla annarra sveitarfélaga er jákvæð og við bindum vonir við að þetta samstarf stuðli að auknum eldvörnum bæði á vinnustöðum sveitarfélagsins og heimilum starfsfólks og auki þar með öryggi fólks. Vonandi smitar þetta líka út frá sér til fólks og fyrirtækja hér í sveitarfélaginu, segir Bjarni.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.
22/2 2017
Ársreikningur EBÍ
Á fundi sínum þann 10. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2016. Heildartekjur félagsins voru rúmar 72 milljónir og rekstrargjöld 193 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 14,3 milljónir og tap félagsins því 134,5 milljónir. Heildareignir félagsins er rúmur 3,1 milljarður og eigið fé tæpir 2,2 milljarðar. Útkoma ársins er mikil breyting frá hagnaði sem var á s.l. ári. Ástæðurnar eru aðallega þær að ávöxtun var lítil og töluverð hækkun er á milli ára á gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.
Nafnvöxtun eigna félagsins var 1,81% en raunávöxtun -0,28%. Eins og þessar tölur gefa til kynna þá var s.l. ár erfitt á fjármagnsmarkaði. Þar hafði m.a. styrking krónunnar mikil áhrif. Innlend skuldabréf gáfu bestu ávöxtunina en erlend skuldabréf sýndu lökustu ávöxtunina. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 64,8%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 10,2% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 8,5% safnsins.
22/2 2017
Fjárfestingastefna EBÍ
Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2017 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 10. febrúar s.l.
Sú breyting var gerð að eignaflokkurinn innlend hlutabréf var hækkaður um 3% og skuldabréf bæjar- og sveitarfélaga lækkaður samsvarandi, áfram eru það ríkistryggð bréf sem er stærsti eignaflokkurinn.
Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.
Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.
Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.
22/2 2017
Auka fundur í fulltrúaráði EBÍ
Fundur í fulltrúaráði Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands verður haldinn fimmtudaginn 23. mars n.k. í Golfskálanum í Grafarholti í Reykjavík.
Á fundinum verður farið yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi og málefni félagsins í heild sinni reifuð. Frumsýnd verður ný teiknimynd um slökkviálfana Loga og Glóð í tilefni af 100 ára afmæli Brunabótafélags Íslands.
Rétt til setu á fundinum eiga kjörnir fulltrúar aðildarsveitarfélaga EBÍ og héraðsnefnda, sbr. 9gr. laga nr. 68/1994.