Fréttir 2013
05/12 2013
Styrktarsjóður EBÍ
Á fundi stjórnar EBÍ nýverið samþykkti hún að árlegt framlag í Styrktarsjóðinn myndi hækka í 5 milljónir króna. Er hér um 25% hækkun frá fyrri uppæð.
Er það von stjórnar að þetta verði starfsemi sjóðsins til heilla.
Nýjar reglur Styrktarsjóðsins má nálgast hér.
05/12 2013
Fjárfestingastefna EBÍ
Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun fjárfestingastefnu EBÍ. Á fundi stjórnar í lok nóvember var undirrituð nýsamþykkt fjárfestingastefna EBÍ.
Ekki er um stórar breytingar að ræða frá fyrri stefnu, áfram eru það ríkistryggð bréf sem er stærsti eignaflokkurinn.
Fjárfestingastefnuna í heild sinni má nálgast hér.
21/11 2013
Slökkviliðsmenn hvetja fólk til að efla eldvarnir á heimilum
Slökkviliðsmenn heimsækja vel á fimmta þúsund átta ára börn til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Umhverfisráðherra fræðir börn í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ um eldvarnir í dag
Slökkviliðsmenn um allt land taka þátt í Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) í aðdraganda hátíðanna. Þeir hvetja almenning til að efla eldvarnir á heimilum en kannanir hafa sýnt að eldvarnir eru ófullnægjandi á mörgum heimilum og íbúarnir því berskjaldaðir fyrir eldsvoðum. Ungt fólk og leigjendur eru þar í mestri hættu samkvæmt könnunum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið.
Allt of mörg heimili hafa engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Innan við helmingur heimila er með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telja lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Nú fer í hönd tími þegar eldhætta eykst á heimilum. Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana.
Lágmarkseldvarnir á heimilum eru:
- Reykskynjarar, tveir eða fleiri.
- Slökkvitæki við helstu flóttaleið.
- Eldvarnateppi á sýnilegum stað nálægt eldavél.
Mjög vantar á að þessi lágmarksbúnaður sé almennt á heimilum landsmanna. LSS efnir því til átaks um að fræða fólk um eldvarnir og mikilvægi þeirra dagana 21.-29. nóvember. Þá heimsækja slökkviliðsmenn um allt land á fimmta þúsund átta ára börn í grunnskólum til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Þeir birta einnig auglýsingar í fjölmiðlum til að minna fólk á mikilvægi reykskynjara.
Átakið hefst í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ fimmtudaginn 21. nóvember. Þar fræða starfsmenn Brunavarna Suðurnesja börn um eldvarnir með aðstoð Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Í kjölfarið fá allir grunnskólar í landinu heimsókn frá slökkviliðinu sínu. Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og Reykjavík, 21. nóvember 2013 fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.
Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.
Nánar:
Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS, í síma 562 2962 eða 892 2635.
Garðar H. Guðjónsson, verkefnisstjóri Eldvarnaátaksins, í síma 895 5807.
05/11 2013
Styrktarsjóður EBÍ
Stjórn EBÍ úthlutaði kr. 4 milljónum úr Styrktarsjóði EBÍ á fundi sínum þann 18. október s.l. Alls voru það 12 verkefni víðs vegar um landið sem fengu styrk. Umsóknir í sjóðinn voru 22.
Hér má sjá lista yfir styrkúthlutun ársins.
16/10 2013
150 milljónir í ágóðahlut
Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 150 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2013.
Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu.
Fjárfestingaumhverfi félagsins takmarkar ávöxtunarmöguleika en m.v. væntingar um ávöxtun fyrir þetta ár þá metur stjórn félagsins það mögulegt nú að greiddur verði út ágóðahlutur til aðildarsveitarfélaganna án þess að útgreiðslan brjóti gegn ákvæðum fjárfestingastefnunnar.
Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.
Með útgreiðslu þessa árs þann 15. október n.k. hafa tæpir 3,8 milljarðar verið greiddir út til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.
Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2013.
16/10 2013
Styrktarsjóður EBÍ
Í Styrktarsjóð EBÍ bárust 22 umsóknir að þessu sinni. Fjórar milljónir króna eru til úthlutunar. Á fundi sínum þann 18. október n.k. mun stjórn EBÍ taka umsóknirnar til umfjöllunar. Öllum umsóknum verður svarað þegar úthlutunin liggur fyrir. Listi yfir úthlutaða styrki mun síðan verða birtur hér á heimasíðu EBÍ.
8/5 2013
Fulltrúaráðsfundur EBÍ
Þann 19 apríl s.l. var haldinn auka fundur í fulltrúaráði Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands. Megin tilgangur fundarins var að kynna nýsamþykktan ársreikning félagsins vegna ársins 2012 ásamt því að fara yfir rekstur og aðra starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi fulltrúaráðsins.
Fundurinn tókst vel í alla staði og sóttu hann 24 fulltrúar frá aðildarsveitarfélögum EBÍ.
7/5 2013
Ársreikningur EBÍ
Nýverið samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2012. Heildartekjur félagsins voru rúmar 225 milljónir og rekstrargjöld 107 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 47 milljónir og hagnaður félagsins því 70,6 milljónir. Heildareignir félagsins eru 3,2 milljarðar og eigið fé 2,4 milljarðar. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.
Ávöxtun eigna félagsins var 8,72% og er það ívið hærri ávöxtun en á síðasta ári. Nú voru það innlend hlutabréf sem gáfu bestu ávöxtunina eða 19,73%. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 75%, eru skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 11% af eignasafninu.