Samþykkt fulltrúaráðs um starfsemi EBÍ

Samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands 3. október 2003

Á fulltrúaráðsfundi Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands árið 1998 var samþykkt ályktun um tilgang og starfssvið félagsins. Var þar sérstaklega tekið á ákveðnum ráðstöfunum sem stjórnendur gætu gert til að viðhalda skyldum félagsins m.a. með því að stofna vátryggingafélag, dótturfélag eða sérstaka vátryggingaþjónustu vegna tryggingamála sveitarfélaga.

Stjórn EBÍ hefur skoðað ofangreinda möguleika og telur að nú séu svo gjörbreyttar aðstæður á markaði að ekki sé rétt að svo stöddu að félagið stofni til sérstakrar vátryggingaþjónustu fyrir sveitarfélög.

Megin hlutverk og tilgangur EBÍ er að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum svo og eignarhald í öðrum skyldum rekstri ss. fjármálastarfsemi, allt eftir aðstæðum á markaði sbr. 3 gr. laga 68/1994 og samþykkta félagsins.

Ofangreind ákvæði eru nánar útfærð í fjárfestingastefnu EBÍ en hún lýsir í megindráttum stefnumörkun félagsins um ávöxtun fjármuna þess.

Þá er það jafnframt hlutverk félagsins að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða svo og alhliða forvarnarstarfs í sveitarfélögunum, sbr. ákvæði í 4 gr. samþykkta félagsins. Hefur félagið stutt við ýmis verkefni á sviði bruna- og forvarna sem eru sveitarfélögunum til hagsbóta. Hafa þau m.a. verið unnin í nánu samstarfi við Brunamálastofnun og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.