Fréttir 2015
19/11 2015
Eldvarnaátakið 2015
Slökkviliðsmenn um allt land: Eflum eldvarnir á aðventunni!
Slökkviliðsmenn heimsækja vel á fimmta þúsund átta ára börn til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Alltof mörg heimili eru berskjölduð fyrir eldsvoðum. Yfir tveir milljarðar króna eyðast í eldi að meðaltali ár hvert.
Slökkviliðsmenn um allt land taka þátt í Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) í aðdraganda hátíðanna. Þeir hvetja almenning til að efla eldvarnir á heimilum en að meðaltali látast ein til tvær manneskjur í eldsvoðum ár hvert og bætt brunatjón nemur árlega yfir tveimur milljörðum króna að meðaltali. Þá er ótalið rask og óþægindi, óbætt brunatjón og margvíslegt tjón sem ekki er unnt að bæta með peningum. Langalgengasta orsök elds í banaslysum er opinn eldur, það er kerti og reykingar.
Kannanir hafa sýnt að eldvarnir eru ófullnægjandi á mörgum heimilum og íbúarnir því berskjaldaðir fyrir eldsvoðum. Ungt fólk og leigjendur eru þar í mestri hættu samkvæmt könnunum sem Gallup hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið.
Alltof mörg heimili hafa engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Innan við helmingur heimila er með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telja lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Nú fer í hönd tími þegar eldhætta eykst á heimilum. Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana.
Lágmarkseldvarnir á heimilum eru:
• Virkir reykskynjarar, tveir eða fleiri.
• Léttvatns- eða duftslökkvitæki við helstu flóttaleið.
• Eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi.
Mjög vantar á að þessi lágmarksbúnaður sé almennt á heimilum landsmanna. LSS efnir því til átaks um að fræða fólk um eldvarnir og mikilvægi þeirra dagana 19.-27. nóvember. Þá heimsækja slökkviliðsmenn um allt land á fimmta þúsund átta ára börn í grunnskólum til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Þeir birta einnig auglýsingar í fjölmiðlum til að minna fólk á mikilvægi reykskynjara.
Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.
Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.
12/10 2015
50 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ
Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 50 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2015.
Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Til að minnka líkur á að gengið sé á eigið fé félagsins til lengri tíma og til að jafna út sveiflur í greiðslu ágóðahluta samþykkti stjórnin að miða greiðslu ágóðahlutans við meðalhækkun eigin fjár síðustu þriggja ára. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.
Að sögn Önnu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra EBÍ þá er það ávallt leiðarljós félagsins að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta.
Með útgreiðslu þessa árs þann 16. október n.k. hafa á núvirði verið greiddir út tæpir 6 milljarðar til aðildarsveitarfélaganna í formi ágóðahlutar.
Hér má sjá yfirlit yfir greiddan ágóðahlut 1998-2015.
12/10 2015
Ágóðahlutur aðildarsveitarfélaganna
Á aðalfundi fulltrúaráðs EBÍ þann 23. september s.l. var samþykkt að áfram skuli hluti hagnaðar af starfsemi félagsins árlega greiddur til aðildarsveitarfélaga EBÍ í formi ágóðahlutar. Jafnframt var áréttað að ætíð eigi að taka mið af meginmarkmiðum fjárfestingastefnu EBÍ við ákvörðun endanlegrar greiðslu.
Meginmarkmið fjárfestingastefnu EBÍ er að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Á aðalfundinum var farið mjög ítarlega í fjárfestingastefnu félagsins og stefnumörkun varðandi ágóðahlutagreiðslu til aðildarsveitarfélaganna.
Hér má sjá ályktun aðalfundarins í heild sinni.
12/10 2015
Akraneskaupstaður innleiðir eigið eldvarnaeftirlit
Akraneskaupstaður innleiddi eigið eldvarnaeftirlit í öllum stofnunum sínum 1. október síðastliðinn í samvinnu við Eldvarnabandalagið.
Sjá hér fréttatilkynningu Akraneskaupstaðar.
Akraneskaupstaður innleiðir eigið eldvarnaeftirlit
34 eldvarnafulltrúar annast reglulegt eftirlit með eldvörnum. Allir starfsmenn bæjarins fræddir um eldvarnir á vinnustaðnum og heimilinu. Skýr yfirlýsing um eflingu eldvarna.
Akraneskaupstaður innleiddi eigið eldvarnaeftirlit í öllum stofnunum sínum 1. október síðastliðinn í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Eldvarnafulltrúar munu héðan í frá annast reglulegt eftirlit með eldvörnum hver í sinni stofnun samkvæmt leiðbeiningum og gátlistum Eldvarnabandalagsins. Eldvarnabandalagið og Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar veittu eldvarnafulltrúum bæjarins, 34 talsins, nauðsynlega fræðslu og þjálfun svo þeir geti sinnt hlutverki sínu.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, segir innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits mikið fagnaðarefni. „Þetta er kærkomin viðbót við eldvarnaeftirlit slökkviliðsins og skýr yfirlýsing af okkar hálfu um að efla eldvarnir hjá stofnunum bæjarins og auka þar með öryggi þeirra sem þar starfa og eiga þangað erindi,“ segir Regína.
Eldklárir starfsmenn
Eldvarnabandalagið og slökkviliðið veittu einnig öllu starfsfólki bæjarins fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustaðnum og heimilinu og var það liður í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits. Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, segir viðbrögð starfsmanna við fræðslunni hafa verið afar jákvæð og ánægjuleg.
„Við leggjum áherslu á að allir starfsmenn bera ábyrgð á því að eldvarnir á vinnustaðnum séu í lagi og allir starfsmenn geta stuðlað að því að svo sé með árvekni og ábyrgri umgengni.
Greinilegt var að fræðslan opnaði augu margra fyrir mikilvægi eldvarna til að vernda líf, heilsu og eignir,“ segir Garðar.
Tilraunaverkefni
Innleiðing eigin eldvarnaeftirlits er liður í samstarfi Akraneskaupstaðar og Eldvarnabandalagsins um að auka eldvarnir. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verður árangurinn metinn að þeim tíma liðnum. Auk þess að efla eldvarnir hjá Akraneskaupstað er tilgangur verkefnisins jafnframt að unnt verði að draga lærdóm og öðlast reynslu sem getur nýst öðrum í sama tilgangi.
Nánar upplýsingar veita Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, í síma 858 1800 og Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, í síma 895 5807.
Meðfylgjandi er mynd tekin var á námskeiði eldvarnarfulltrúa í september síðastliðnum ásamt yfirlitsmynd af Akranesi.
Bestu kveðjur,
Sædís Alexía
28/09 2015
Ný stjórn EBÍ
Á aðalfundi fulltrúaráðs EBÍ sem haldinn var 23. september s.l. var kosin ný stjórn EBÍ.
Í fyrsta skipti í 98 ára sögu félagsins eru konur fleiri en karlar í stjórn. Ánægjulegt er að þetta gerist á 100 ára kosningaafmæli kvenna.
Stjórn EBÍ 2015-2019:
Ása Helgadóttir |
Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu |
Björn Ingimarsson |
Fljótsdalshéraði |
Friðbjörg Matthíasdóttir |
Vesturbyggð |
Guðmundur Baldvin Guðmundssson |
Akureyri |
Guðný Hrund Karlsdóttir |
Húnaþingi vestra |
Gunnsteinn Ómarsson |
Sveitarfélaginu Ölfusi |
Margrét Friðriksdóttir |
Kópavogsbæ |
Sjá nánar hér.
9/09 2015
Eldvarnir í brennidepli á Skaganum
Eldvarnabandalagið og Akraneskaupstaður hafa gert með sér samkomulag um að efla eldvarnir á heimilum og í fyrirtækjum og stofnunum á Akranesi. Markmið samstarfsins er meðal annars að þróa verkefni sem geta nýst öðrum við eldvarnafræðslu og innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana.
Í Fréttablaðinu í dag birtist grein þar sem Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Garðar H.Guðjónsson verkefnastjóri fara yfir markmið og tilgang verkefnisins, sjá hér.
7/07 2015
Aðalfundur fulltrúaráðs EBÍ
Aðalfundur fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands verður haldinn miðvikudaginn 23. september n.k. á Grand Hótel Reykjavík.
Á fundinum verður farið yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi og málefni félagsins í heild sinni reifuð. Þá verður einnig kjörin ný stjórn fyrir félagið.
Rétt til setu á fundinum eiga kjörnir fulltrúar aðildarsveitarfélaga EBÍ og héraðsnefnda, sbr. 9gr. laga nr. 68/1994.
7/07 2015
Styrktarsjóður EBÍ
Á fundi stjórnar EBÍ nýverið fór fram úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ. Veittir voru 16 styrkir samtals að upphæð kr. 5 milljónir. Dreifðust styrkirnir á hina ýmsu staði vítt og breitt umlandið.
Úthlutun Styrktarsjóðsins má nálgast hér.
27/05 2015
Efla eldvarnir og öryggi í leiguíbúðum Kletts leigufélags
Klettur leigufélag hefur í samvinnu við Eldvarnabandalagið hvatt leigjendur hjá félaginu til að fara yfir eldvarnir á heimilum sínum og hafa samband telji þeir að úrbóta sé þörf. Klettur leigufélag leigir út 450 íbúðir víðs vegar um land. Áður en íbúð er afhent nýjum leigjendum sér félagið um að setja upp viðeigandi búnað, svo sem reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Þetta er gert í samræmi við viðmið Eldvarnabandalagsins um eldvarnir á heimilum.
Klettur leigufélag og Eldvarnabandalagið hafa sent leigjendum Kletts leigufélags bréf um mikilvægi eldvarna ásamt handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir. Tilefni samstarfsins eru rannsóknir sem sýna að eldvarnir eru yfirleitt mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.
Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Kletts leigufélags, segir félagið líta á það sem samfélagslega skyldu sína að tryggja nauðsynlegar eldvarnir í íbúðum félagsins og þar með öryggi íbúanna.
- Fyrir afhendingu íbúða til nýrra leigjenda setur Klettur leigufélag upp tilskilinn eldvarnabúnað. Þannig höfum við komið fyrir nauðsynlegum eldvarnabúnaði í stórum hluta þeirra íbúða sem við önnumst rekstur á. Eftir stendur ákveðið hlutfall íbúða þar sem hugsanlega þarf að efla eldvarnir. Því hvetjum við leigjendur til að yfirfara eldvarnabúnað og hafa samband við okkur ef úrbóta er þörf. Við munum þá bæta úr við fyrsta tækifæri, segir Bjarni.
Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, fagnar framtaki Kletts leigufélags en það er eitt helsta áherslumál Eldvarnabandalagsins að efla eldvarnir í leiguhúsnæði.
- Það er fagnaðarefni að stórt leigufélag eins og Klettur leigufélag skuli hafa svo skýra stefnu í eldvörnum. Ég vona að þau skilaboð sem hafa verið send leigjendum félagsins stuðli að bættum eldvörnum og öryggi íbúanna, segir Garðar.
16/04 2015
Akraneskaupstaður og Eldvarnabandalagið taka höndum saman:
Samstarf um átak í eldvörnum á Akranesi
Eldvarnabandalagið og Akraneskaupstaður hafa gert með sér samkomulag um að efla eldvarnir á heimilum og í fyrirtækjum og stofnunum á Akranesi. Markmið samstarfsins er meðal annars að þróa verkefni sem geta nýst öðrum við eldvarnafræðslu og innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana. Samstarfið felur í sér að Akraneskaupstaður innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur útbúið. Þá verður fræðslu um eldvarnir beint að umsækjendum um húsaleigubætur en rannsóknir sýna að eldvarnir eru mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, segir spennandi fyrir Akraneskaupstað að taka þátt í verkefninu með Eldvarnabandalaginu. - Sveitarfélög hafa samkvæmt lögum ríkar skyldur í eldvörnum með rekstri slökkviliðs og opinberu eldvarnaeftirliti. Með samstarfinu við Eldvarnabandalagið förum við nýjar leiðir til að efla eldvarnir og öryggi fólks og njótum þar mikillar reynslu Eldvarnabandalagsins og efnis sem það hefur gefið út. Ef vel tekst til getur reynslan af þessu samstarfi vonandi nýst öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum og starfsfólki þeirra, segir Regína.
Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Akraneskaupstað. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum bæjarins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá fá allir starfsmenn bæjarins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og fræðslu án endurgjalds.
Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, segir ánægjulegt að fá tækifæri til að þróa verkefnin í samvinnu við Akraneskaupstað og tæplega 20 stofnanir og nærri 600 starfsmenn hans. - Við bindum vonir við að reynslan af samstarfinu hér á Akranesi verði öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum hvatning til að feta sömu braut, segir Garðar.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.
10/4 2015
Eldvarnabandalagið fagnar ákvæðum um eldvarnir í húsaleigulögum
Eldvarnabandalagið fagnar tillögu stjórnvalda um að í húsaleigulögum verði kveðið á um skyldur leigusala til að tryggja eldvarnir í leiguhúsnæði. Eldvarnabandalagið telur að ný ákvæði um eldvarnir yrðu mikilvægt skref í þá átt að auka eldvarnir í leiguhúsnæði en rannsóknir sýna að eldvarnir eru miklu lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði. Úr því verður að bæta.
Í 9. gr. frumvarps félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á húsaleigulögum er lagt til að við 14. gr. laganna bætist ákvæði um eldvarnir. Í athugasemdum við greinina kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir að við afhendingu leiguhúsnæðis verði þar að lágmarki reykskynjari og slökkvitæki. Í frumvarpinu segir einnig að leigusala beri að viðhalda eldvörnum húsnæðisins (13. gr.).
Rannsóknir sem Capacent hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sýna að eldvarnir í leiguhúsnæði eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Það á við allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Í ljósi þessara niðurstaðna hefur Eldvarnabandalagið ítrekað bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að í húsaleigulögum verði kveðið á um skyldur leigusala til að tryggja eldvarnir.
Ennfremur hefur Eldvarnabandalagið bent stjórnvöldum á að leita þurfi leiða til að auka eldvarnir í eldra leiguhúsnæði sem ekki er byggt samkvæmt nútímakröfum um eldvarnir og verði kröfur um úrbætur byggðar á meðalhófi og raunsæi með tilliti til kostnaðar.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf. Eitt helsta áhersluverkefni Eldvarnabandalagsins á næstu vikum og mánuðum verður að þrýsta á um úrbætur og grípa til aðgerða til að auka eldvarnir í leiguhúsnæði.
6/3 2015
Ársreikningur EBÍ
Nýverið samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2014. Heildartekjur félagsins voru rúmar 156 milljónir og rekstrargjöld 97 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 38,6 milljónir og hagnaður félagsins því 19,9 milljónir. Heildareignir félagsins er rúmur 3,1 milljarður og eigið fé 2,3 milljarðar. Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.
Nafnvöxtun eigna félagsins var 5,08% en raunávöxtun 4.01%. Erlend hlutabréf gáfu bestu ávöxtunina en innlend löng verðtryggð ríkisskuldabréf drógu ávöxtunina niður. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 62,4%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 15,9% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 10% safnsins.
6/3 2015
Fjárfestingastefna EBÍ
Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2015 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 6. febrúar s.l.
Ekki er um stórar breytingar að ræða frá fyrri stefnu, áfram eru það ríkistryggð bréf sem er stærsti eignaflokkurinn.
Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.
Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.
Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.
15/1 2015
Samið um aðgerðir Eldvarnabandalagsins
Eldvarnabandalagið hyggst efla starf sitt að úrbótum í eldvörnum heimila og fyrirtækja á þessu ári til að auka öryggi fólks og draga úr eignatjóni vegna eldsvoða. Samkvæmt samkomulagi um aðgerðir sem gert var nýlega hyggst Eldvarnabandalagið meðal annars leggja áherslu á að auka eldvarnir í leiguhúsnæði og hjá ungu fólki en rannsóknir sýna að þessir hópar eru berskjaldaðri en aðrir þegar kemur að eldvörnum. Garðar H. Guðjónsson ráðgjafi hefur verið ráðinn til að stýra verkefnum Eldvarnabandalagsins á árinu.
Eldvarnabandalagið var stofnað sumarið 2010 og hefur síðan ráðist í margvísleg verkefni til að efla eldvarnir heimila og fyrirtækja. Bandalagið hefur gefið út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir heimila og fræðsluefni og leiðbeiningar um eigið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana, staðið að rannsóknum á eldvörnum heimila og stuðlað að umræðu um eldvarnir í fjölmiðlum. Nýlegar rannsóknir sýna að fræðsla um eldvarnir hefur skilað sér hægt og bítandi í öflugri eldvörnum á heimilum.
Aðild að Eldvarnabandalaginu eiga eftirfarandi fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.
Auk þess að efla eldvarnir í leiguhúsnæði og hjá ungu fólki hyggst Eldvarnabandalagið meðal annars stuðla að auknum eldvörnum á vinnustöðum með eigin eldvarnaeftirliti fyrirtækja og stofnana, auka þekkingu og öryggi vegna svonefndrar logavinnu og fræða almenning um eldvarnir og mikilvægi þeirra.
Á myndinni frá vinstri: Kristján Einarsson Félagi slökkviliðsstjóra, Bjarni Kjartansson SHS, Methúsalem Hilmarsson TM, Jón Svanberg Hjartarson Landsbjörg, Björn Karlsson Mannvirkjastofnun, Anna Sigurðardóttir EBÍ, Auður Daníelsdóttir Sjóvá, Auður Björk Guðmundsdóttir VÍS og Guðmundur Jóhann Jónsson Verði.