Fréttir 2001

15/10 2001

EBÍ greiðir 150 milljónir króna í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands hefur ákveðið á grundvelli samþykkta fulltrúaráðs félagsins að greiða aðildarsveitarfélögum sínum samtals 150 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar í ár. Greiðslan rennur til þeirra 86 sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða rúmar 16 milljónir króna. Til Kópavogs renna tæpar þrettán milljónir, Reykjanesbær fær rúmar tíu milljónir í sinn hlut, Ísafjarðarbær rúmlega sjö milljónir og Vestmannaeyjabær rúmar sex milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna, greiðslu iðgjalda af tryggingum sveitarstjórna og brunavarna í sveitarfélaginu.

Ágóðahlutur aðildarsveitarfélaganna frá EBÍ hefur orðið til þess að nokkur sveitarfélög munu endurnýja slökkvibifreiðar sínar á næstunni.

EBÍ hefur um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Slíkar greiðslur hófust árið 1934 með samningi Brunabótafélags Íslands við sveitarfélög um fjármögnun slökkvitækja. Árið 1955 var gefin út sérstök reglugerð um þessar greiðslur, og aftur árið 1985. Á síðustu fjórum árum hafa aðildarsveitarfélögin fengið samtals greiddar um 530 milljónir króna í ágóðahlut. Frá upphafi hefur EBÍ því greitt hundruðir milljóna króna til aðildarsveitarfélaga, miðað við verðlag í dag.

Nánari upplýsingar veitir: Anna Sigurðardóttir, EBÍ. (Sími: 544-5070).