Fréttir 2011

17/11 2011

Eldvarnaátakið 2011
Slökkviliðsmenn hafa áhyggjur af berskjölduðum heimilum

Yfir helmingur heimila án reykskynjara, slökkvitækis eða eldvarnateppis. Um þriðjungur heimila með engan eða aðeins einn reykskynjara. Slökkviliðsmenn heimsækja yfir fjögur þúsund átta ára börn til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir.

Slökkviliðsmenn hafa áhyggjur af því hve mörg heimili í landinu eru berskjölduð fyrir eldsvoðum. Allt of mörg heimili hafa engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Innan við helmingur heimila er með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telja lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Nú fer í hönd tími þegar eldhætta eykst á heimilum. Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana. Tveir létust í eldsvoðum á síðasta ári og eignatjón nam 1,7 milljarði króna.

Slökkviliðsmenn hafa því miður farið í útköll þar sem fólk hefur látist af þeirri einu ástæðu að reykskynjara vantaði. Það vilja þeir alls ekki þurfa að upplifa.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) efnir því til átaks um að fræða fólk um eldvarnir og mikilvægi þeirra dagana 18.-25. nóvember. Þá heimsækja slökkviliðsmenn um allt land á fimmta þúsund átta ára börn í grunnskólum um allt land til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir. Þeir birta einnig auglýsingar í fjölmiðlum til að minna fólk á mikilvægi reykskynjara.

Kannanir sem Capacent hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið undanfarin ár sýna að hægt gengur að bæta eldvarnir heimilanna þrátt fyrir fræðslu og hvatningu slökkviliðsmanna og fleiri. Allt of fáir hafa þann búnað sem slökkviliðsmenn telja að þurfi að vera á hverju heimili; tvo reykskynjara eða fleiri, slökkvitæki nálægt útgangi og eldvarnateppi í eldhúsi.

Átakið hefst í Fossvogsskóla í Reykjavík föstudaginn 18. nóvember. Í kjölfarið fá allir grunnskólar í landinu heimsókn frá slökkviliðinu sínu. Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.

LSS stendur að Eldvarnaátakinu í samvinnu við TM, slökkviliðin í landinu, Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og fleiri. Könnun Capacent frá 2010 sýnir að 98,6 prósent landsmanna telja Eldvarnaátakið mikilvægt. Hún sýnir jafnframt að svipað hlutfall ber mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

3/10 2011

Aðalfundur fulltrúaráðs EBÍ

Aðalfundur fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands verður haldinn miðvikudaginn 12. október n.k. á Grand Hótel Reykjavík og hefst með hádegisverði kl. 11.30.

Á fundinum verður farið yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi ásamt yfirferð um fjárfestingastefnu félagsins og stefnumörkun varðandi útgreiðslu ágóðahluta. Einnig skal kjósa nýja stjórn fyrir félagið.

Rétt til setu á fundinum eiga kjörnir fulltrúar aðildarsveitarfélaga EBÍ og héraðsnefnda, sbr. 9gr. laga nr. 68/1994.

14/9 2011

Átak til að efla eldvarnir á vinnustöðum og heimilum

Eldvarnabandalagið, sem EBÍ er aðili að, hefur ákveðið að hefja átak til þess að efla eldvarnir fyrirtækja um allt land og jafnframt á heimilum starfsmanna. Stuðlað verður að því að fyrirtæki taki upp eigið eftirlit með eldvörnum og að starfsmenn verði virkir þátttakendur í eldvörnum, bæði á vinnustaðnum og heima. Eignatjón vegna eldsvoða nemur að jafnaði um 1.500 milljónum króna ár hvert. Fólk lætur reglulega lífið í eldsvoðum og margir verða fyrir heilsutjóni.

Að Eldvarnabandalaginu stendur öflugur hópur stofnana, félagasamtaka og tryggingafélaga sem hafa það sameiginlega markmið að auka eldvarnir til þess að draga úr tjóni á lífi, heilsu og eignum. Bandalagið var stofnað 2010 og gaf þá út vandað fræðsluefni um eldvarnir heimila sem síðan hefur fengið víðtæka dreifingu.

Fyrirtæki eiga von á því að fá heimsóknir slökkviliða og tryggingafélaga. Þeim verður afhent kynningar- og fræðsluefni um eigið eldvarnaeftirlit sem fyrirtækjum ber að halda uppi samkvæmt lögum. Starfsmenn fyrirtækjanna fá þá jafnframt fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum jafnt sem heimafyrir. Starfsmönnum verður meðal annars afhent handbók heimilisins um eldvarnir, sem Eldvarnabandalagið gaf út í fyrra.

Aðild að Eldvarnabandalaginu eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Mannvirkjastofnun, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM, VÍS og Vörður tryggingar.

10/7 2011

Styrktarsjóður EBÍ

Á s.l. ári ákvað stjórn EBÍ að fé Styrktarsjóðs EBÍ myndi renna til Rangárþings Eystra vegna þeirra verkefna sem sveitarfélagið þarf að klást við í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Stjórn EBÍ hefur samþykkt að sami háttur verði hafður á þetta árið og ekki verður óskað eftir umsóknum í sjóðinn heldur mun úthlutunarfé sjóðsins renna til Skaftárhrepps vegna þeirra hamfara sem þar hafa orðið í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum. Mun féð renna til uppbygginar á tækjabúnaði slökkviliðsins á Kirkjubæjarklaustri en í ljós hefur komið að búnaður þess dugir engan veginn til að takast á við þær aðstæður sem hafa skapast á svæðinu, m.a. til hreinsunarstarfa vegna langvarandi öskufoks.

6/7 2011

Logi og Glóð

Um þessar mundir er verið að senda öllum slökkviliðum landsbyggðarinnar efni vegna eldvarnarverkefnisins um Loga og Glóð. Er þetta fjórða árið sem verkefnið hefur verið unnið í samvinnu við leikskóla landsins. EBÍ lætur slökkviliðum utan höfuðborgarsvæðisins í té verkefni og gögn fyrir leikskólabörn, en síðan eru það slökkviliðin sem heimsækja leikskólana og fræða krakkana.

Smá nýjung læðist með þetta árið en krakkarnir fá inn í verkefnamöppuna sína plakat af Loga og Glóð sem hægt er að hengja upp á vegg hjá sér.

Það ríkir mikil ánægja með verkefnið og er það alltaf að festast betur í sessi.

6/7 2011

Logi og Glóð á landsbyggðinni

Slökkviliðið á Akureyri býður öllum leikskólabörnum á starfssvæði þess í útskriftarveislu á slökkvistöðina í tengslum við eldvarnarverkefnið Loga og Glóð.

Slökkviliðið á Akureyri hefur lagt mikinn metnað í verkefnið og á þakkir skildar fyrir. Hér má sjá fréttina um útskriftarveisluna á heimasíðu slökkviliðsins.

Brunavarnir Árnessýslu hafa líka sinnt verkefninu af mikilli alúð. Hér má sjá frétt um heimsókn í Leikskólann Jötunheima á Selfossi.