Fréttir 2022

01/11 2022

50 milljónir í ágóðahlut til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands ákvað á fundi sínum nýverið að greiddar yrðu út til aðildarsveitarfélaga EBÍ kr. 50 milljónir í ágóðahlut fyrir árið 2022. Hér má sjá skiptingu milli aðildarsveitarfélaganna.


Útgreiðslan byggir á samþykkt síðasta aðalfundar fulltrúaráðs félagsins og því meginmarkmiði fjárfestingastefnu EBÍ að greiða aðildarsveitarfélögunum árlega út ágóðahlut en með þeim fyrirvara að lágmarkaðar séu líkur á að höfuðstóll skerðist við útgreiðslu. Stefnt skal að því að ekki sé greiddur út lægri ágóðahlutur en 50 milljónir og ekki hærri en 250 milljónir.


Árið 1998 markaði upphaf ágóðahlutagreiðslna til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Fulltrúaráð félagsins hefur hvatt aðildarsveitarfélögin til að nýta þetta framlag til að stuðla að bættum bruna- og forvörnum í sveitarfélögunum enda hefur það ávallt verið megintilgangur þessa framlags.


Það hefur ávallt verið leiðarljós EBÍ að vera traustur bakhjarl í forvarnarstarfi og láta ávöxtun félagsins renna til aðildarsveitarfélaganna íbúum þeirra til hagsbóta. Það er því afar ánægjulegt að vita til þess að á núvirði hafa verið greiddir út úr félaginu 7,7 milljarðar á þessu tímabili.



14/6 2022

Stefna EBÍ varðandi Heimsmarkmiðin

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hefur sett sér stefnu og aðgerðaráætlun varðandi Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Er þetta gert í samræmi við viljayfirlýsingu EBÍ og Markaðsstofu Kópavogs um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem undirrituð var 23. september 2020.

Stefnuyfirlýsingin var samþykkt í stjórn EBÍ 26. nóvember 2021 og aðgerðaráætlunin á stjórnarfundi þann 20. maí sl.

Stefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands (EBÍ) byggir á lögum um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994 og samþykktum fyrir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands frá árinu 2003. Þá byggir stefnan á innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð, sjálfbæra þróun og jákvæð áhrif í starfsemi EBÍ á umhverfið og samfélagið.


Aðgerðaráætlunin er sett fram til þriggja ára í senn með árlegri endurskoðun í framhaldi af stefnumótun þar sem áhersla er lögð á mælanleg markmið og tímaáætlun um aðgerðir.

Ákveðið var að vinna að innleiðingu eftirfarandi 8 heimsmarkmiða: Nr. 3 heilsa og vellíðan, nr. 4 menntun fyrir alla, nr. 5 jafnrétti kynjanna, nr. 8 góð atvinna og hagvöxtur, nr. 9 nýsköpun og uppbygging, nr. 12 ábyrg neysla og framleiðsla, nr. 12 aðgerðir í loftlagsmálum og nr. 16 friður og réttlæti.


Nánari upplýsingar um stefnuna og aðgerðaráætlunina má finna hér.


10/6 2022

Úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ lokið

Á fundi stjórnar EBÍ þann 20. maí s.l. var úthlutað styrkjum úr Styrktarsjóði EBÍ.

Alls var sótt um styrk til 19 verkefna frá jafn mörgum sveitarfélögum.

Samþykktar voru 12 styrkveitingar samtals að upphæð 6,4 milljónir.

Styrktarsjóður EBÍ hefur verið starfræktur frá árinu 1996. Samtals hefur verið úthlutað styrkjum að upphæð 102 milljónir til 286 verkefna víðsvegar um landið. Lista yfir úthlutanir sjóðsins frá upphafi er að finna á heimasíðunni undir flipanum Styrktarsjóður .


8/4 2022

Hækkun framlags til Styrktarsjóðsins

Átta milljónir koma nú til úthlutunar úr Styrktarsjóði EBÍ. Er þetta umtalsverð hækkun frá fyrri árum. Umsóknarfrestur er til 30 apríl og hægt er að nálgast umsóknareyðublaðið hér á heimsíðunni. Úthlutun fer fram á fundi stjórnar EBÍ þann 20. maí.


8/3 2022

Ársreikningur EBÍ

Á fundi sínum þann 11. febrúar s.l. samþykkti stjórn EBÍ ársreikning vegna ársins 2021. Heildartekjur félagsins voru 303 milljónir og rekstrargjöld 167 milljónir. Áfallinn fjármagnstekjuskattur á árinu var 67,6 milljónir og hagnaður félagsins því 68,3 milljónir. Heildareignir félagsins eru rúmir 3,3 milljarðar og eigið fé um 2,2 milljarðar. Hagnaður félagsins lækkaði milli ára m.a. vegna aukinnar gjaldfærslu v/lífeyrisskuldbindinga og þess að ávöxtun var lægri en á s.l. ári.
Ársreikninginn í heild sinni má sjá hér.


Nafnvöxtun eigna félagsins var 9,4% en raunávöxtun 4,0%. Innlend hlutabréf komu best út ásamt erlendum hlutabréfum. Stærsti hluti eignasafns félagsins, eða um 54,4%, eru skuldabréf og innistæður með ábyrgð ríkissjóðs en síðan eru það erlend hlutabréf sem eru um 12,0% af eignasafninu og innlend hlutabréf eru um 8,7% safnsins.


8/3 2022

Fjárfestingastefna EBÍ

Fjárfestingastefna Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands fyrir árið 2022 var samþykkt í stjórn EBÍ þann 11. febrúar s.l.


Nokkrar breytingar voru gerðar á stefnunni bæði er varðar hlutföll í eignaflokkum. Hlutfall sértryggðra skuldabréfa og erlendra hlutabréfa lækkar en hlutfall skuldabréfa bæjar- og sveitarfélaga og innlendra hlutabréfa hækkar á móti.


Áfram er það meginmarkmið stefnunnar að EBÍ standi undir skilgreindum markmiðum um árlega útgreiðslu ágóðahlutar til aðildarsveitarfélaga EBÍ. Stjórn félagsins er falið að ákveða endanlega upphæð ágóðahlutarins en við ákvörðun hans skal hafa í huga að lágmarkaðar séu líkur á því að skerða þurfi höfuðstól á milli ára.


Eignastýringu félagsins er úthýst til þriggja fjárvörsluaðila sem allir vinna eftir fyrirfram skilgreindum fjárfestingastefnum.

Fjárfestingastefnu félagsins í heild sinni má nálgast hér.